06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (1572)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Thor Thors:

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Eins og ráð var tekið upp í Ed. nú, þá var það í rauninni hrein markleysa, því að upphaflega var ekki farið fram á annað í till. en að nota lagaheimild frá 1928. Sé ég ekki betur en að málið hafi því verið eingöngu skrumauglýsing, og er það í samræmi við aðrar gerðir hv. flm. (TrÞ: Heimildin var fallin niður). Fjhn. Ed. breytti þessu og kom viti í það og fjvn. Nd. hefir tekið undir þá till.

Upphaflega var ætlazt til, að ríkissjóður legði fram helming kostnaðar, en nú hefir verið horfið frá því og það látið nægja, að ríkissjóður leggi fram 2/5 kostnaðar. Hygg ég það nægilegt til að málið fái þá lausn, sem nauðsynleg er. En út af því, sem ýmsir hv. þm. hafa verið að tala um, að þetta væri sérhagsmunamál fyrir Rvík, vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að þetta er hagsmunamál alls landsins í heild. Ég vil benda á, hve mikill fjöldi unglinga af öllu landinu sækir til Rvíkur til skólanáms, og það er vitanlega ákaflega þýðingarmikið fyrir þennan ungdóm að geta notið þeirrar heilbrigði, sem sundíþróttin veitir. Og þó að þetta væri eingöngu gert fyrir Rvík, þá má ekki ganga framhjá því, að þar eru búsettir rúmlega 30 þús. menn, eða því nær 1/3 allra landsbúa. Og þegar litið er á heilbrigðisástæður þjóðarinnar í heild, þá verður því ekki neitað, að það hefir geysilega mikla þýðingu fyrir framtíð þjóðarinnar að gera það, sem unnt er, til að auka heilbrigði manna í þessum bæ, og er einmitt enn meiri þörf á því í Rvík en annarsstaðar á landinu, því að Reykjavíkurbúar hafa ekki við að búa það hreina og heilnæma loft, sem strjálbýlið veitir. Ég álít því, að þetta sé stórkostlegt menningarmál, sem snertir ekki eingöngu Rvík, heldur alla þjóðina í heild, og greiði því hiklaust atkv. með till. eins og hún nú liggur fyrir.