24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í D-deild Alþingistíðinda. (1573)

58. mál, launakjör

Flm. (Jón Pálmason):

mér þykir slæmt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki vera hér öll viðstödd, því að það, sem ég segi um þetta mál, sem hér liggur fyrir, á fyrst og fremst erindi til hennar, og þá í fyrsta lagi náttúrlega til hæstv. forsrh.

Ég þykist vita, að gera megi rað fyrir, að allir hv. þdm. hafi fylgzt svo vel með í fjárhagslífi þjóðarinnar á síðustu árum, að þeim standi ljóst fyrir augum, hvernig straumurinn hefir stefnt í atvinnulífi og fjármálaháttum. Hann hefir stefnt á þá leið, að þeim mönnum, sem reka framleiðslu á eigin ábyrgð, fer sífækkandi í hlutfalli við aðrar stéttir, og sívaxandi örðugleikar eru beint og óbeint lagðir í götu þessara manna með þeim stjórnarháttum, sem ríkt hafa í landinu nú um skeið. Hæstv. atvmrh. komst að þeirri niðurstöðu á síðasta þingi, að bændur landsins hefðu árið 1932 haft 16 aura tímakaup. Ég hygg nú, að þetta hafi eigi verið reiknað út, því að það ar höfðu fjölmargir bændur minna en ekkert kaup, þó að flestir þeirri vinni 10–14 tíma á sólarhring árið yfir. Hinn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegur, hefir verið þannig settur síðustu arin, að mestallar þær miklu tekjur, sem framleiddar eru á vegum hans, fara í kostnað. Atvinnufyrirtækin eru skuldum hlaðin og hafa engin skilyrði til að tryggja sinn hag eða afla þeirra verðmæta, sem ómissandi eru til þess að framleiðsla geti byggzt á traustum grunni og atvinnulífið á vegum þeirra verið blómlegt og þróttmikið. Þriðja höfuðgrein framleiðslunnar í landi voru, iðnaðurinn, er ung og óþroskuð, vaxandi að vísu, sem betur fer, en undirokuð af sama háska, gífurlegum gjöldum og rýrum tekjum, eins og aðrir atvinnuvegir landsins. 4 sama tíma, sem þetta stendur þannig, að allir þeir hornsteinar, sem þjóðfélagsbygging okkar lands hvílir á, eru að síga undan óhóflegri yfirhleðslu, hafa þau undur skeð, að hv. Alþingi hefir haldið launum embættismanna ríkisins og stofnana þess í hámarki, eða óbreyttum að kalla má. Þetta þýðir það, að launastéttin hefir aldrei haft við betri kjör að búa í hlutfalli við þær stéttir, sem framleiðsluna stunda. Þetta atferli segir líka til sín á viðeigandi hátt í afleiðingum, því að á undanförnum árum hefir ungt fólk, sem einhvers á úrkosti, lagt á það meira kapp en nokkru sinni fyrr að hverfa frá framleiðslunni og komast í launastéttina með einhverjum hugsanlegum ráðum. Svo langt er þetta þegar gengið, að kennarar háskólans eru farnir að vara nemendurna opinberlega við hættunni, sem við blasir. Er það að vísu drengilega gert, en dugir skammt, á meðan ríkisvaldið hagar sér jafnraðlauslega og verið hefir. Aldrei hefir borið meira á því en á síðustu árum, að unga uppvaxandi fólkið hópaðist úr sveitum landsins, og liggja til þess eðlilegar og margþættar orsakir, sem skökk tök á beitingu ríkisvaldsins eiga höfuðorsökina á. Einn þátturinn í þeim vef er það, sem hér um ræðir, sem sé aukin sérréttindi til handa því fólki, sem hið opinbera vald hefir á launum. Að undanförnu hefir ekkert þing liðið svo, að eigi væri beint og óbeint stofnað til fleiri eða færri nýrra launastarfa. Sum störfin hafa verið búin til, svo að hægt væri að láta vissa einstaklinga fá laun, önnur til að geta veitt launamanni aukastarf, o. s. frv. En í gegnum allt saman hefir gengið sá andi, sú stefna, sú viðleitni að láta þetta nýja starfsvið hafa hærri laun, betri kjör en aður hefir tíðkazt.

Þessar aðfarir fóru lengi leynt, en hafa smátt og smátt kvisazt út á meðal fólksins. Þær hafa að vonum vakið mikla óánægju hjá eldra starfsmannaliði ríkisins, sem í raun og veru býr við skorinn skammt, þegar miðað er við hina nýríku launastétt. Þetta hefir vakið andúð og jafnvel viðbjóð meðal almennings af öllum flokkum úti um sveitir okkar lands, og nú er svo komið, að almennar kröfur heimta, að ljóst og ákveðið sé dregið fram í dagsljósið allt ráðlag þeirra manna, sem á þessu sviði hafa að undanförnu haldið veldissprotanum milli fingra sér.

Á þingi 1932 gerðu sjálfstæðismenn kröfu til, að skýrsla um starfslið og launakjör væri látin fylgja fjárlfrv. stj. í hendur þingsins. Þetta brást á síðasta þingi, en þegar langt var liðið þings, var fjvn. þessarar d. fengið í hendur ófullnægjandi yfirlit um þetta, en jafnframt vald til að grafa dýpra í hauginn.

Hv. meðflm. minn að þeirri till., sem hér liggur fyrir, þm. Borgf., mun hafa lagt mesta vinnu í þetta starf, og undir þinglok gaf hann skýrslu um þær niðurstöður, sem sú rannsókn leiddi í ljós, ófullnægjandi að vísu, en nógu ljósa samt til þess, að þingheimur og almenningur gæti áttað sig á, hve hyggilega, drengilega og ráðvandlega ríkisvaldinu hefir verið beitt á þessu sviði. Í þessari skýrslu kom margt í ljós, sem athyglisvert er, enda mun hún hafa vakið eftirtekt landsmanna landshornanna milli. Það, sem í ljós kom, var einkum þetta:

1. Að launagreiðslur utan launalaga eru yfirleitt stórum mun hærri en til þeirra manna, sem taka laun samkv. launalögunum.

2. Að ósamræmi í launakjörum manna við svipaða starfsemi er svo gífurlegt, að furðu sætir.

3. Að fjöldi af starfsmönnum ríkisins hefir auk hins fasta starfs hin og önnur launuð aukastörf, í mörgum tilfellum jafnvel á því sviði, sem heilbrigð dómgreind mundi hiklaust telja í hinum sjálfsagða verkahring viðkomandi starfsmanns.

4. Að launin fyrir aukastörfin eru hjá ýmsum starfsmönnum talsvert hærri en hin föstu laun, og hjá öðrum stappa nærri að vera jafnhá.

Að launastörfin eru svo mörg og margvísleg og verkahringur ýmsra starfsmanna svo smár eftir launahæð, einkum við hinar nýrri stofnanir ríkisins, að enginn vegur er til annars en að breyta skipulagi og fækka starfsmönnum að miklum mun.

Allt þetta hafa hv. þm. sennilega athugað og allt þetta gerir þá hugsun að öruggri vissu, að hér verður að taka fast í taumana og gera endurbætur á. Till. var að vísu samþ. á síðasta þingi í þá átt að skora á stj. að taka málið fyrir, en mér er sagt, að litið eða ekkert hafi verið í því gert að þessu. Það eitt er líka víst, að ekkert hefir komið fyrir þetta þing um endurbætur á þessu sviði. Það eina, sem frá hæstv. fjmrh. hefir heyrzt, eru tilmæli um að framlengja óbreytta dýrtíðaruppbót á embættislaun, en það tel ég stefna í öfuga átt við það, sem vera ber.

þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 105, er nú aðeins bráðabirgðatilraun til þess að krefjast sem allra skjótastra leiðréttinga á því misrétti, sem hér er um að ræða. Leiðréttinga í þá átt að færa niður svo fljótt sem verða má launagreiðslur til þeirra manna, sem taka laun utan launalaga og hæst laun og mestar og óþarfastar aukagreiðslur hafa. Till. er tilraun til að leiða það skýrt í ljós, hvort vilji er fyrir hendi meðal þeirra þjóðfulltrúa, sem skipa þessa hv. d., til að gera þær breyt., sem unnt er að gera nú þegar. Hún er jafnframt tilraun til að vita um vilja og möguleika hæstv. ríkisstj. til endurbóta á þessu sviði.

það er gert ráð fyrir, að tíu mánuðir líði þar til saman kemur reglulegt þing, sem tækifæri veitir til að taka þetta vandasama mál allt í gegn. Á þessu tímabili mætti margar þúsundir spara ríkissjóði á þessu sviði, ef einbeitt og fasttæk ríkisstj. með þingvilja að baki sýndi alla viðleitni til hagkvæmra átaka í því efni.

Hitt er mér þó fullljóst, að margir og margvíslegir annmarkar eru á þessari framkvæmd. Verð ég þó því miður að játa, að mér hefir eigi gefizt færi á að rannsaka, hvað víðtækir og margháttaðir þeir eru í sumum efnum; vænti ég, að hæstv. fors.- og fjmrh. gefi d. nokkrar upplýsingar um ýms þau atriði. M. a. ekki sízt það, hve víðtækir og margvíslegir samningar eru fyrir hendi við starfsmenn við stofnanir ríkisins, er hindra niðurfærslu á launum. Hvað margt af þeim og hvaða starfsflokkar hafa samninga upp á annað en algengan uppsagnarfrest, o. s. frv. Framkvæmd þessarar till., ef samþ. verður, ætlast ég til, að verði m. a. sú, að segja öllum slíkum samningum upp tafarlaust, svo að þeir séu þó eigi til hindrunar á næsta þingi, þegar ætla má, að nýtt kerfi verði lögleitt á þessu sviði.

Ég ætla ekki neitt að skora á hv. þm.samþ. þessa till. Þar fer hver og einn vitanlega eftir sínum vilja, sínum hugsunarhætti, sinni stefnu á því sviði, sem hér er um að ræða, og ég geri ráð fyrir, að flokksböndin séu þar tæplega til hindrunar.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu.