05.12.1933
Neðri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (1590)

58. mál, launakjör

Pétur Ottesen:

Það var reyndar eitthvað eftir í ræðu frsm. í sambandi við rétta mál hér á dögunum, sem ég átti eftir að svara, þegar umr. var frestað, en ég mun þó ekki rifja það upp.

En mér þykir afgreiðsla n. á málinu einkennileg. Hún gengur inn á það, að efni till. sé réttmætt og beinir því til stj. að fara eftir því, sem í till. stendur, en vill þó ekki láta samþ. till., eins og við till.menn ætlumst til. Skil ég það ekki, fyrst n. fellst á till., að hún skuli ekki vilja leggja til, að till. verði samþ. En það fer þá náttúrlega eftir undirtektum stj., sem leggja á málið í hendurnar á, hvort við flm. getum sætt okkur við þessa afgr. Vildum við þá fara þess á leit við stj., að hún léti í ljós álit sitt á þinglegan hátt.

Þar sem nú á að skipa n. til þess að athuga og gera till. um breyt. á launakjörum starfsmanna ríkisins, sem m. a. er gert af þeirri ástæðu, að svo mikið ósamræmi er nú á um launagreiðslur til starfsmanna ríkisins, að óhjákvæmilegt er að gera breyt. í því efni, þá leiðir það af sjálfu sér, að þar sem þetta ósamræmi er þannig viðurkennt af þinginu, þá er sjálfsagt að nota nú þegar þau tækifæri, sem gefast til launalækkunar eftir því sem við verður komið, þangað til gengið er endanlega frá þeirri löggjöf, sem n. á að undibúa. Mér virðist þetta í samræmi við hinar till., sem samþ. voru, að þingið samþ. líka þessa till., sem hér liggur fyrir.