30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (1611)

48. mál, samvinnufélagið

Jakob Möller:

Ég varð mjög hissa. þegar ég sá þáltill. þessa. Hún verkaði á mig sem sterk sönnun þess, hvaða öfgar er hægt að komast út í, þegar verið er að sækja um ríkisábyrgðir fyrir allskonar fyrirtæki. Eins og allir vita, er Borgarnes byggt upp á allt öðru en útgerð. Frá alda öðli hefir mönnum ekki komið til hugar, að útgerð frá Borgarnesi gæti gengið. Þeir menn, sem þar hafa setzt að, hafa byggt sína afkomumöguleika á allt öðrum hlutum en útgerð.

Mér finnst eðlilegast, bæði vegna þess, hvernig þetta þorp er til orðið, og einnig vegna þess, hvernig það er í sveit sett, að atvinnuvegum sé haldið þar áfram í því sama horfi, sem verið hefir, en að ekki sé verið að reyna atvinnu þar á annan veg.

Það eru ekki fiskimenn, sem setzt hafa að í Borgarnesi, heldur þeir, sem hafa stundað landbunað, og hafa þeir haldið áfram að stunda landbúnað að meira eða minna leyti. Hér er ekki að ræða um fólk, sem lifi einungis á eyrarvinnu, heldur lifir það á jarðrækt og kvikfjárrækt. Ef þetta þorp fengi þessa ríkisábyrgð, þá gæti ég alveg eins búizt við því, að farið yrði að stinga upp á fiskveiðaútgerð frá ýmsum sveitarfélögum, t. d. að hæstv. forseti færi að biðja um ábyrgð ríkisins fyrir Biskupstungnahrepp til kaupa á línuveiðara. Einhvernveginn mun vera hægt að komast að sjó frá Biskupstungum, a. m. k. með hjálp flutningatækja. (TT: Væri ekki fyrirtak að hafa útgerð á Þingvallavatni?).

Ég held, að í þessu sambandi væri mjög tilhlýðlegt að athuga vel, hvernig reitt hefir af þeim fyrirtækjum, sem komið hefir verið á fót með þessum hætti og í sama augnamiði. Mér er kunnugt, að ýms af þeim hafa farið illa, t. d. samvinnufélag á Akureyri, sem maður skyldi þó halda, að hefði haft töluvert betri aðstöðu heldur en „Grímur“. Mér hefir verið sagt svipað um samvinnufélag í Stykkishólmi, sem líka hefir haft betri aðstöðu, bæði vegna legu og líka vegna þess, að íbúar þess þorps eru uppaldir við að stunda fiskveiðar.

Þó að ég unni Borgnesingum alls hins bezta, þá get ég ekki talið mér fært að greiða till. þessari atkv. mitt. Mér finnst hún svo vanhugsuð og flaustursleg, að ég er hissa á því, að hún skuli hafa verið borin fram. Og enn meira er ég hissa á því, að hv. sjútvn. skuli mæla með henni.