30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (1612)

48. mál, samvinnufélagið

Bjarni Ásgeirsson:

Ég þakka hv. sjútvn. fyrir till. hennar í þessu máli, þann skilning, sem hún hefir sýnt á þörfum Borgnesinga á því, að komið verði á fót útgerð hjá þeim, og alla meðferð á málinu.

Hinsvegar get ég ekki þakkað hv. 1. þm. Reykv., sem stóð hér upp og talaði í málinu. Hann virtist vera mjög utan garna um ástæður, bæði þarna og annarsstaðar á landinu, til að koma á fót útgerð. M. a. kom hann með þá fjarstæðu, að ef ríkisábyrgð yrði veitt til þess að hægt væri að koma upp útgerð í Borgarnesi, þá mundi eins líklegt vera, að farið yrði fram á hið sama t. d. fyrir Biskupstungur. Ég vil ráðleggja hv. þm. að rifja upp sína landfræðikunnáttu, sem sýnilega er farin að ryðga. Í barnaskólum er t. d. notuð landafræði Karls Finnbogasonar. Væri kannske ekki úr vegi fyrir hv. þm. að líta í hana, og þá mundi hann sjá, að Biskupstungur eru langt uppi í landi, en Borgarnes við sjó.

Á þessum stað, Borgarnesi, hefir verið löggilt höfn í tugi ara, og reglubundnar skipaferðir hafa verið þaðan og til Rvíkur vikulega, og suma tíma ars daglega síðari árin. Kemur það sjaldan fyrir, að skip geti ekki komizt á þessa höfn a. m. k. að degi til, sem þó er ekki hægt að segja um ýmsar aðrar hafnir á landinu, þar sem menn byggja þó að miklu leyti tilveru sína á útgerð.

Hv. þm. hélt því fram, að af því að Borgarnes væri byggt upp af öðrum atvinnuvegum heldur en útgerð, þá kæmi ekki til greina að koma þar á fót nýjum atvinnuvegi, sem ekki hefði þekkzt þar áður. Allir sjá, hvílík fjarstæða þetta er. Var ekki Reykjavík byggð á verzlun upphaflega? Jú, eingöngu, eða því sem næst. Útgerðin var a. m. k. engin í Rvík á fyrstu tímum bæjarins, heldur annarsstaðar við Faxaflóa, svo sem úti á Nesi. En þegar kom hér öflug höfn, þá skapaðist hér í bænum hin langstærsta útgerð landsins með tilstuðlun þings og stjórnar. Upphaflega voru hér í Rvík hin lökustu skilyrði til landbúnaðar. Þó hafa hér í grennd risið upp hin myndarlegustu bú landsins, eftir að markaðs- og atvinnuskilyrði breyttust. Þannig er hægt að skapa atvinnuvegi með því að breyta aðstöðunni frá því, sem einu sinni var.

Það er rétt, að Borgarnes var byggt upp í fyrstu aðallega á verzlun milli Rvíkur og útlanda annarsvegar og sveitanna umhverfis þorpið hinsvegar. Þegar fólki fjölgaði þar, sköpuðust einnig skilyrðin til þess, að jarðrækt gæti gefið þar arð, og Borgnesingar hafa notað sér skilyrðin til jarðræktar til hins ýtrasta. Á þessum hrjóstruga skaga, þar sem áður var mjög grýtt og gróðurlaust, eru nú græn tún og garðar.

þegar smábátaútgerðin var eingöngu stunduð hér aður fyrr, þá var óhugsandi að gera út frá Borgarnesi, vegna þess hve langt er þaðan á fiskimiðin. En möguleikarnir til útgerðar þar hafa skapazt með því að farið er að nota stærri skip til veiða og eftir að góð höfn er nú komin þar. Síðan höfnin kom er aðstaðan ekki miklu verri þar til fiskveiða en á Akranesi eða hér í Rvík. Ég skal viðurkenna það, að stór skip verða að sæta sjávarföllum og sigla þar inn að degi til á sumum tímum árs. En línuveiðara er vel hægt að sæta sjávarföllum og hafa innsiglingu að degi til, án þess að það þurfi neitt að hamla fiskveiðunum, því að línuveiðarar leggja miklu sjaldnar upp heldur en smábátar. Að þessu leyti hefir aðstaðan því gerbreytzt og batnað fyrir sjávarútveg í Borgarnesi, alveg eins og skapazt hafa möguleikar til landbúnaðar hér í Rvík. Þótt einhver atvinnuvegur hafi í fortíðinni ekki hrifizt á einhverjum stað, þá er ekki hægt að slá því föstu, að hann geti ekki þrifizt þar í framtíðinni. T. d. þótt ekki hafi verið stunduð útgerð á Skagaströnd, svo neinu nemi, þá verða þar skilyrði til þess, þegar ríkið er búið að skapa þau með því liðsinni, sem það veitir viðvíkjandi hafnargerð þar.

Ég skil ekki í því, að hæstv. Alþ. þurfi að setja Borgarnes á neinn „svartan lista“ í þessu efni, þó að það hafi ekki hingað til haft skilyrði til þess að hafa útgerð hjá sér.

Til viðbótar því, sem hv. frsm. n. sagði, vil ég taka það fram, að nú á síðari árum hefir atvinnuleysi aukizt í Borgarnesi. Bæði hefir dregið úr viðskiptum sveitanna umhverfis við Reykjavík og útlönd, vegna yfirstandandi kreppu, sem kemur niður á Borgnesingum, og einnig hafa samgöngur milli Suður- og Norðurlands færzt suma tíma árs, eða um sumartímann, inn fyrir Hvalfjörð. En áður lágu þær samgöngur nær allar gegnum Borgarnes. Hefir þetta tvennt, ásamt því, að fólki hefir samtímis fjölgað í þorpinu, orðið til þess, að atvinna þar hefir stórum minnkað. En Borgfirðingar eru úrræðagóðir menn, og hafa þorpsbúar tekið til þess ráðs, sem næst var hendi, og tekið til ræktunar það af landi, sem þeir höfðu ræktanlegt, og meira en það. En nú eru þau þröngu skilyrði, sem fyrir hendi voru í Borgarnesi, svo að segja notuð út í æsar. Því finnst mér það eðlilegt, að þeir líti nú til sjávarins, þar sem skilyrðin hafa skapazt fyrir þá til útgerðar álíka góð og annarsstaðar við Faxaflóa.

Mér virðist, að ekki sé nema um tvennt að gera til þess að fólkið geti lifað á þessum stað. Annaðhvort verði ríkið að hlaupa hér undir baggann með Borgnesingum og veita þessa ábyrgð, eða að kostað verði miklu fé til atvinnubóta með öðrum hætti. En því fé, sem hingað til hefir verið veitt til atvinnubóta, hefir sama sem verið kastað í sjóinn að öðru leyti en því, að það hefir haldið lífinu í fólkinu, sem hefir notið þess. En það, sem hér er farið fram á, er, að ríkið hjálpi því fólki, sem vill vinna, til þess að hjálpa sér sjálft. Það eru einu atvinnubæturnar, sem vit er í.

Enn sem komið er hafa Borgnesingar ekki menn, sem geta stjórnað skipum. Þó er það alveg víst, að ef þeir eignuðust skip það, sem hér er um að ræða, þá mundu þeir geta valið úr skipstjórum á það. Eru því fyllstu líkur til, að þeim gæti orðið hjálp að því, sem hér er farið fram á, bæði með því, að ungir menn þeirra gætu fengið vinnu á skipinu við fiskveiðar, og einnig á þann hátt, að þeir, sem ekki geta farið á sjó, gætu fengið vinnu við fisk, sem upp væri lagður þar.

Sé Borgnesingum ekki veitt þessi hjálp til að auka atvinnu heima hjá sér , þá sé ég ekki annað en að þeir hljóti að flykkjast þaðan burt til einhverra annara staða, og þá auka atvinnuleysið þar. en það álít ég ekki heillavænlegra.