30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (1617)

48. mál, samvinnufélagið

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. flm. frv. hefir nú enn á ný tekið fram rökin fyrir því, að þetta mál er flutt hér á þingi fyrir Borgnesinga. Hefi ég engu við það að bæta né heldur við ráð, sem ég áður tók fram fyrir hönd — já, nú verð ég víst að segja meiri hl. n., því að nú heyrði ég, að hv. þm. Ísaf. er á móti málinu.

Hv. þm. segir, að ekki séu skilyrði fyrir hendi til að reka útgerð þarna í Borgarnesi. Ég get ekki verið samdóma hv. þm. í þessu atriði, þegar um er að ræða að gera út línubáta, sem eru lengi úti í túrum, en þurfa ekki að leggja upp afla sinn daglega, eins og smábátarnir. Ég get ekki séð, að neitt sérstakt mæli á móti því, að Borgnesingar geti átt slíkan línuveiðara, sem ekki þarf að leggja upp afla nema á 10 daga eða hálfs mánaðar fresti, eftir því sem atvik standa til.

Ég sé ekki heldur neitt á móti því, að Borgnesingar eigi skip það, sem hér er um að ræða, og geri það út til síldveiða. Það virðist, eftir reynslu annara línubáta að dæma í þessu efni hin síðari ár, ætti að geta borið góðan árangur.

Sú mótbára hv. þm., að ekki sé til íshús í Borgarnesi til beitugeymslu, vegur ekkert á móti till. að mínu áliti. hér er ekki um það að ræða, að grípa þurfi daglega til beitu í landi handa skipinu. Akranes er ekki langt frá, og ætti skipið að geta tekið beitu þar og birgt sig upp til nokkurs tíma, því sjálfsagt er beitugeymsla í skipinu. Og enda þótt ekki fengist einhverju sinni heita á Akranesi, þá er þó stutt til Rvíkur og færi lítill tími í að sækja beituna þangað.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi það hina mestu firru að hugsa um útgerð frá Borgarnesi, vegna þess að Borgnesingar væru upphaflega sveitamenn, sem hefðu að töluvert miklu leyti atvinnu af ræktun. Ég er ekki sammála hv. þm. um, að þessi rök geti verið nægileg mótmæli gegn þessari útgerð til þess, að leggjast beri á móti málinu þeirra vegna.

Því hefir verið lýst hér í ressari hv. d., og það hefir mér verið tjáð af Borgnesingum sjálfum, að ræktunarmöguleikarnir í Borgarnesi séu svo að segja tæmdir, og að það sé ekki hægt að benda á fleiri leiðir til framdráttar fólkinu þar, sem byggðust á atvinnu þar heima. Hitt, að sveitamenn geti ekki komið til greina í þessu efni, er mjög fjarri sanni. Við vitum það allir, og hv. 1. þm. Reykv. er kunnugt um það líka, að togaraflotinn fær ekki lítið af sínum góðu kröftum einmitt úr sveitunum. Mér er sérstök ánægja að nota tækifærið til þess að lýsa því yfir, að ég tel, að í Vestmannaeyjum hafi útgerðinni komið mikill og góður styrkur í vinnuafli þeirra manna, sem heima hafa átt í sveit og stundað hafa sveitabúskap jöfnum höndum. Auk þess eru flestir þeirra manna, sem mest eru þar við útgerð riðnir, ýmist fluttir úr sveit eða afkomendur þeirra manna, sem þaðan hafa flutzt, bæði úr Árnessýslu, Skaftafellssýslum, Rangarvallasýslu og viðar að. Það er því sízt ástæða til að ætla, að útgerð gæti ekki blessazt Borgnesingum fyrir þá sök, að þeir séu sveitamenn.

Ég ætla ekki að fara að eltast við þá firru, að þeir hreppar, sem liggja langt inni í landi og ekki hafa aðgang að sjó, geti með sama rétti og Borgarnes beðið um ríkisábyrgð til þess að stofna til útgerðar, þó að innsigling í Borgarnesi sé erfið. Borgnesingar hafa bryggju, sem er hæfileg fyrir slík skip, sem hér er um að ræða.

Á síðastl. sumri var í fyrsta sinn verkaður fiskur í Borgarnesi að nokkru ráði. Ég held, að ég hermi það rétt, að Kveldúlfur hafi látið þá fá fisk til að verka. Mér er ekki kunnugt um, að nein mistök hafi verið á því hjá þeim. Það sýnir, að þeir geta verkað fisk og hafa tæki til þess. Hér er því um það að ræða, hvort þingið vilji fallast á að styðja þá framtakssömu menn, sem Borgarnes byggja, til þess að afla sér með eigin fiskiveiðum aukatekna heima í byggðarlagi sínu.

Mér virðist líka, eftir hví sem málið var flutt í n. af hálfu þeirra Borgnesinga, að það vera á fyllilega heilbrigðum grundvelli byggt, miðað við annað, sem fram hefir verið flutt hér á þingi um útgerðarmál, þar sem Borgnesingar hafa augastað á að fá skip, sem telja má fyrsta flokks, miðað við alla staðháttu. Hinsvegar áliti ég það ekki nein verðmæti, ef þeir væru að hugsa um kaup á skipi, sem væri að verða úrelt. Hv. 1. þm. Reykv. ætti að athuga það, að þau skip, sem við Íslendingar höfum til fisköflunar, eru óðum að ganga úr sér. Marga togara hér í Rvík þyrfti talsvert að endurnýja. — Þessar mótbárur, sem komið hafa gegn þáltill., og sú gagnrýni, sem gerðir n. hafa orðið fyrir í hv. d., eru harla lítils verðar, að því er mér virðist. Hv. flm. lýsti því líka mjög greinilega, að þó jafnvel áður fyrr hafi verið slæm skilyrði til útgerðar í Borgarnesi, þá er aðstaðan þar svo breytt orðin, að það er langt frá því, að það sé nokkurt óvit fyrir Borgnesinga að leggja í að kaupa línubát. Náttúrlega getur slíkt fyrirtæki misheppnazt, ef óheppnin er með, en mér finnst málið bera þannig að, að engin ástæða sé til að ganga út frá því sem gefnu, að hér sé um óviturlegt fyrirtæki að ræða.

Að öllu athuguðu vil ég halda fast við skoðun meiri hl. n. og verð að harma, að hv. þm. Ísaf. skuli skipa sér á öndverðan meið í þessu máli, þar sem hér er þó um augljóst framfaramál að ræða fyrir þá mörgu menn í Borgarnesi, sem þurfa á bættum atvinnumöguleikum að halda.