06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (1623)

55. mál, meðgjöf með fávitum

Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég hefi fátt eitt að segja um þessa till. f. h. n., annað en það, sem stendur í nál. Hv. flm. gerði svo greinilega grein fyrir því, hvernig ástatt væri um þetta heimili, í framsöguræðu sinni, að við það þarf engu að bæta.

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, styrkti ríkissjóður þetta hæli samkv. því, sem samþ. var á síðasta þingi. Og hér er farið fram á, að veittur sé einhver styrkur úr ríkissjóði, til þess að gera þeim mönnum, sem þarna eiga hlut að máli, ofurlítið greiðara fyrir um að komast í hælið. Það blandast engum hugur um það, að hér er um nauðsynjamál að ræða, en það, að fjvn. hefir leyft sér að minnka upphæð þá, sem farið er fram á í till., er meðfram af því, að hælið er tæplega tekið til starfa ennþá, og ég býst við, að meining hv. flm. hafi ekki verið önnur en sú, að veittar væru 500 kr. með hverjum þeim sjúklingi, sem hefði ársvist í hælinu. Nú sem stendur eru fáir komnir í hælið, eitthvað 4 eða 5 fávitar, og sennilegt er, að það verði haft þannig, að þeir verði látnir sitja fyrir um pláss á þessu hæli, sem mesta hafa þörfina, og sennilegt er, að þeir séu hér og þar af landinu, og komi þess vegna ekki í hælið um hávetur, og þar af líðandi verður hælisvist þeirra ekki eins löng eins og gert er ráð fyrir í till. Þess vegna álitum við, að 10 þús. kr. mundu nægja, jafnvel þó að hlutfallslega sé veitt það, sem farið er fram á í till. — 500 kr. með hverjum sjúkling —, sem miðast við ársdvöl á hælinu.

Ennþá er ekki komið neitt ábyggilegt um það, hver rekstrarkostnaðurinn muni verða og hvað dýrt verður fyrir sjúklingana að vera í hælinu. Hv. flm. nefndi upphæð, frá 80 til 100 kr., fyrir hvern sjúkling á mánuði, en það getur hinsvegar orðið ódýrara, en það veit maður ekkert um.

Þess vegna álitum við ekki nema sanngjarnt, að upphæðin væri færð niður, og það, sem við gerum að till. okkar í nál., er, að í staðinn fyrir 12500 kr. komi 10 þús. kr.

Ég vil f. h. n. vona, að þessi þáltill. verði samþ. með þessari breyt. og gangi sem greiðast í gegnum þessa hv. d.