24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta umfangsmesta mál, sem núv. þing hefir til meðferðar, er búið að ganga gegnum Nd. og er nú hingað komið.

Í Nd. var auðvitað breytt talsvert því frv., sem lagt var fyrir þingið, en þó þær breyt. væru nokkuð margar, voru þær ekki að sama skapi mikilvægar. Það voru aðallega 2 eða 3 breytingar, sem gerðar voru í Nd., sem hægt er að segja, að séu verulegar, og get ég þar nefnt reglurnar um hverjir taki uppbótarsæti, og að numinn var burt heimildin til þess að raða á landslista fyrirfram. Þetta eru stórvægilegustu breytingarnar, en hitt eru ýmsar leiðréttingar og óverulegar efnisbreyt., sem ég ætla ekki að fara neitt út í.

Ég vona, þó að þetta mál sé nokkuð umfangsmikið, að það taki ekki mjög langan tíma í þessari hv. d., því að það var tekið það hyggilega ráð að kjósa stjskrn. og gengið út frá, að þessu máli væri til hennar vísað, og hefi ég fyrir satt, að sú n. hafi þegar athugað frv. allrækilega. Vona ég því, að frv. þurfi ekki að tefja þingið lengi, en geng hinsvegar út frá því, að þinginu verði ekki haldið lengi áfram eftir að þetta mál er endanlega útkljáð, því að það er sýnilegt, að það verður seinast af þeim málum, sem nauðsyn er að afgreiða í sambandi við stjskr.breytinguna.

Ég geri svo að till. minni, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til stjskrn.