08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (1672)

82. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Frsm. (Páll Hermannsson):

Ég vil f. h. n. þakka hæstv. atvmrh. fyrir góðar undirtektir við málið. Ég bjóst alltaf við þeim, og ég tel, að þær hafi líka komið.

Eins og ég tók greinilega fram í fyrri ræðu minni, leggur n. það algerlega á vald stj. að meta það, hvort þörf muni verða á að gefa uppbót á kjötið. Er og varla við því að búast á þessu stigi málsins, að landbn. vilji fara að gera um það ákveðnar till. Ég vil þó taka það fram, að saltkjötið vakti sérstaklega fyrir n. N. er kunnugt um það, að útlit er fyrir, að mikill verðmunur muni verða á útfluttu saltkjöti og freðkjöti. Hefi ég ekki leyfi n. til þess að gefa neinar yfirlýsingar um það hvort n. ætlast til, að freðkjötið verði bætt upp, ef verð á því verður 72 aura kg., eins og hæstv. ráðh. taldi, að óhætt væri að gizka á, en ég get sagt það fyrir mig, að þótt ég telji það verð of lágt eftir þörfinni, get ég þó ekki búizt við, að stj. sjái sér fært að taka fé úr okkar hálftóma ríkiskassa til þess að bæta það verðlag upp. En fyrst verðmunur er á saltkjötinu og freðkjötinu, tel ég hinsvegar nauðsynlegt, að gefin verði uppbót á saltkjötið að einhverju meira eða minna leyti, til þess að reyna að samræma verðið á því við verðið á freðkjötinu. Stór svæði á landinu, sem lifa eingöngu af sauðfjárrækt, hafa ekki getað notað sér frosna markaðinn, og eru það bæði kaupfélög og kaupmannaverzlanir, sem hafa verið útilokuð frá fyrsta markaðinum. Það má að vísu búast við því, að sumt af saltkjötinu sé lélegri vara en freðkjötið, en það er líka jafnvíst, að mikið af saltkjötinu er góð og fullboðleg vara.

Ég veit ekki, hvort hæstv. atvmrh. er ánægður með þessi svör, en ég legg áherzlu á það enn og aftur, að n. leggur það á vald stjórnarinnar að meta þörfina í þessu efni. — Ég vænti þess, að meðnm. mínir skýri frá því, sem fyrir heim hefir vakað, ef skoðanir þeirra eru að einhverju leyti í ósamræmi við það, sem ég hefi sagt.