08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (1688)

69. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Mér þykir hæstv. ráðh. hafa nú valið sér hið slæma hlutskipti, þar sem hann hefir tekið fremur illa báðum þeim málum, sem ég hefi hér hreyft. Hitt treystir hann á, af því að komið er að þinglokum og hvorki ég né aðrir þm. vilja teygja úr umr., að hann geti nú sloppið með snakk. Varnir hans voru ekki annað. Og það sjá t. d. allir, að sparnaðurinn, sem hann var að tala um, við að geta sagt upp hásetunum á varðskipunum, við skulum segja annanhvern mánuð, getur ekki numið stórfé. Það þarf ekki reikningsmann til að reikna það í huga sínum. Við skulum segja, að hér væri að ræða um 15 menn, sem hefðu 500 kr. á mánuði, sem mun vera of vel í lagt; það sjá allir, að ekki kemur út há tala.

Af því að ég vil ekki tefja tímann mun ég ekki hafa þessi orð fleiri, en ég get sagt hæstv. ráðh. það, út af undirtektum hans undir þær sanngjörnu málaleitanir, sem ég hefi borið hér fram, að það getur farið svo, að hann sé ekki alveg sloppinn. Það getur verið, að þó það verði e. t. v. ekki ég, þá komi einhver Austfirðingur á þing, sem hefir hug á að taka í gegn það, sem hér hefir fram komið.