24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Hv. 2. landsk. helgaði mér meiri hluta ræðu sinnar og var mjög gramur og sár. Það er nú ekki neitt óeðlilegt, að menn verði sárir, þegar þeir hafa orðið fyrir öðrum eins vonbrigðum eins og hv. 2. landsk. á þessu þingi, og virði ég honum það til vorkunnar.

Hv. þm. komst svo að orði í ræðu sinni, að ég hefði risið upp á afturlappirnar í fyrra, þegar náð hefði verið samkomulagi um stjskrbreyt. Hann mun hafa nokkuð fyrir sér í því, að samkomulag hafi náðst milli nokkurra manna um stjskrbreyt. Ég vil þó taka það skýrt fram, að mitt umboð til samninga milli flokkanna þá var beint bundið því skilyrði, að landslistafyrirkomulag jafnaðarmanna yrði ekki haft. Mér er hinsvegar ekki kunnugt um, að þetta samkomulag ætti að ná til kosningalaganna.

Hv. þm. segir, að frv. eins og það nú liggur fyrir brjóti í bága við stjskrbreyt. Ég sé nú ekki með mínu leikmannsviti, að þetta sé rétt. Það stendur skýrum stöfum í 1. gr. stjskr.frv., að a. m. k. annaðhvert sæti á landslista sé skipað frambjóðanda utan Rvíkur. Ég tel það tvímælalaust á valdi löggjafarvaldsins að semja kosningalögin og að samkomulagið frá í fyrra nái ekki til þeirra. Og það, sem styrkir mig í þeirri trú, er það, að tveir menn í Nd., sem stóðu að samkomulaginu í fyrra, greiddu atkv. með þessari breyt.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að ég bæri ekki fólkið úti um land fyrir brjósti. Hann taldi, að vel gæti svo farið, að 200 manns gætu komið að manni á landslista, en aftur á móti gæti sá fallið, sem fengi 12 þús. atkv.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að þessir 200 menn úti um land, sem hann talaði um, eru allt eins margir eins og sú klíka, sem ræður í flokki hv. 2. landsk. Hinsvegar hefir hv. þm. alls ekki lesið frv. til kosningalaganna, úr því hann heldur fram þessari fjarstæðu, þar sem það er skýrt tekið fram í frv., að sá komi fyrst til greina við úthlutun uppbótarsæta, sem flest hefir fengið atkvæðin. Annars er það alls ekki hugsanlegur möguleiki, að frambjóðandi fái 12 þús. atkv. án þess að ná þingsæti.

Hv. þm. er nú hlaupinn burt úr d., svo það er ekki eins gaman við hann að tala, en ég vil þó minnast á það, sem hann sagði um, hvað ég legði mikið kapp á þingmennsku framvegis. Ég er sjálfur ekki eins áfram um að vera á þingi framvegis eins og hann hyggur. Störfin hér eru ekki alltaf svo skemmtileg. En ég vil aðeins geta þess, að ég mun hvergi bjóða mig fram, hvorki í Austur-Húnavatnssýslu eða annarsstaðar, nema í samráði við mína kjósendur, en án tillits til þess, hvað fámennar klíkur hér í Reykjavík, þó að miðstjórnir nefnist, segja um slíkt.