24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Þorláksson:

Ég hafði nú gert ráð fyrir, að þetta frv. yrði ekki gert að löngu umræðuefni við þessa 1. umr. En úr því svo fór, að hv. þdm. hafa flutt hér alllöng erindi um þetta mál, þá vil ég einnig segja nokkur orð frá almennu sjónarmiði, eins og þingsköp heimila.

Eftir stjskrbreyt. og kosningalögunum koma þessi 11 uppbótarsæti í rauninni í staðinn fyrir gamla landskjörið. Við stjskrbreyt. var lögð áherzla á að halda rétti hinna einstöku kjördæma til þess að velja sér fulltrúa á þing. Þessi réttur hefir verið varðveittur; það held ég, að viðurkennt sé af öllum. Þar fyrir utan kemur svo skipun landskjörinna þingmanna, eftir því sem þörf krefur til jöfnunar á milli flokka, en þó fari sú tala aldrei yfir 11 þingsæti. Hér er aðeins deilt um aðferðina við að skipta niður uppbótarsætum. Því hefir verið haldið fram, að hin einstöku kjördæmi ættu að hafa öll ráðin um valið á þessum þm. Þessu til stuðnings hefir því verið haldið fram, að það sé trygging fyrir því, að maðurinn verði hæfur þm., að hann hafi fengið fylgi í einhverju kjördæmi. Hitt sé aftur á móti óhæfa, að fela hinum svokölluðu flokksklíkum áhrifavald í þessu efni.

Ég vil út af þessu biðja hv. þdm. að líta í sinn eiginn hóp. Í þessari hv. d. eiga sæti 6 landsk. þm. og einn, sem áður var landsk., en nú kosinn í kjördæmi. Þessar klíkur, sem hér hefir verið talað um, hafa teflt þessum mönnum fram og ráðið um val á þeim. Þá er á það að líta, hvort þessir þm. séu miklu lélegri heldur en hinir, sem kosnir eru í kjördæmum. (Dómsmrh.: Þeir munu vera mjög misjafnir). Ég hygg nú samt, að ekki sé hægt að segja, ef málið er athugað með sanngirni, að landskjörið hafi yfirleitt fært þinginu lakari krafta heldur en kjördæmin. Ég ætla, að aðeins tveir af þessum landskjörnu þm., sem hér eiga sæti, hafi haft fyrir því að bjóða sig fram í kjördæmum áður. Það er þess vegna að mínum dómi ekki hægt að halda því fram með sanngirni, að það sé trygging fyrir því, að sá sé hæfari starfskraftur, sem fellur í kjördæmi. Ég sé ekki, að hér sé um nokkra verulega tryggingu að ræða.

Við kosningar til Alþ. hefir kjósandinn hingað til vitað, hvern hann er að styðja með atkv. sínu. Það er eðlilegt og sjálfsagt, að menn viti slíkt og geti lagfært, ef flokksklíkan hefir farið illa með vald sitt. Nú bætist þar við, að kjósendur eiga að fá vitneskju um það, hvaða flokki þeir greiða atkv. sitt.

Mér virðist, eins og frv. liggur nú fyrir frá hv. Nd., að ekki sé nægilega vel gengið frá þessum tveim atriðum. Það þarf að vera svo úr garði gert, að hægt sé að segja, að kjósandinn viti jöfnum höndum, hvaða menn og hvaða flokk hann styður með atkv. sínu. Ég hygg, að hér sé vöntun í frv., en tel hinsvegar, að hægt sé að bæta úr þessu, enda væri slíkt verulegur galli á frv., ef þetta hvorttveggja kæmi ekki greinilega fram. Ég skal að svo komnu ekkert um það segja, hversu þeirri hv. n., sem að sjálfsögðu fær málið til athugunar, tekst að bæta úr þessum göllum, en ég vænti þess, að hún taki á þessu fastari tökum en hv. Nd., svo að þessi réttur sé ekki tekinn frá kjósendunum.

Hv. 3. landsk. leggur aðaláherzluna á það, að menn viti, hvaða mönnum þeir greiði atkv. Ég álít, að gætt hafi í umr. of mikillar tortryggni gagnvart flokksstjórnum og þingflokkum um val á landskjörinn lista eða í uppbótarsæti. Hinsvegar hefi ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að kjósendur ættu að hafa algert valfrelsi um uppstillingu frambjóðenda í einstökum kjördæmum. Þegar við hv. 2. þm. Rang. störfuðum í milliþinganefnd, gerðum við líka ráð fyrir frjálsara og fullkomnara valfrelsi fyrir kjósendurna heldur en verið hefir hingað til. Ég læt mér þó ekki detta í hug, að við förum eins langt í þessa átt eins og þar sem vald kjósandans við kjördæmakosningar er fyllst, en það er í Svíþjóð, þar sem ekki eru notuð nein framboð, en það er borgaraleg skylda að taka við kosningu til ríkisþingsins, sem fer þannig fram, að kjósandinn býr sjálfur til kjörseðilinn, skrifar á hann nafn þess manns, sem hann vill greiða atkv., og afhendir svo kjörseðilinn sjálfur á kjörfundi eins og hann hefir frá honum gengið. Slíkt fyrirkomulag stingur mjög í stúf við okkar fyrirkomulag á þessum hlutum, og þótt mér detti ekki í hug, að það verði tekið upp hér hjá okkur, vil ég samt hinsvegar segja það, að sú tilhögunin er bezt í þessum efnum, sem gefur kjósandanum sem frjálsastar hendur um það, hvern hann vill velja fyrir þm. sinn. Að því, er landskjörsætin snertir, hefir það líka verið talið eðlilegast, að kjósandinn hefði sem óbundnastar hendur að þessu leyti, þótt að vísu sé erfitt að koma þessu við og samræma það þeirri kosningatilhögun, sem hér hefir verið tekin upp, meðfram þó með það fyrir augum, að rétt kjósandans til áhrifa á það, hvernig þingsætin verði skipuð, þarf að tryggja sem bezt.

Ég hefi svo ekki meira um þetta að segja. Ég hefi vikið í höfuðdráttunum að því, sem ég vildi kalla mína stefnu að því er snertir þá kafla frv., sem helzt hefir verið ágreiningur um. Ég skal hinsvegar ekkert um það segja, hvernig tekst í n. að gera þau sjónarmið gildandi.