24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Það hafa nú svo margir þm. talað á milli okkar hv. 3. landsk., að ég er farinn að gleyma ýmsu af því, sem ég hafði ætlað mér að drepa á við hann. Ég vildi þó hughreysta hv. þm. að því er það snertir, að ég hafi orðið fyrir einhverjum vonbrigðum um hann. Ég hefi aldrei gert mér neinar vonir um hv. þm. Meðan hann var með sárastar tilfinningarnar eftir kosningarnar í sumar, vildi hv. þm. fara að vinna til vinstri, en ég hafði þá enga trú á hans umvendun og lét þá skoðun í ljós við ýmsa flokksmenn hv. þm., þegar þetta bar á góma.

Fáir þm. hafa lagt meira kapp á að tryggja sér þingsæti en einmitt hv. 3. landsk. Starf hans tvö síðustu þing hefir þannig fyrst og fremst gengið í þá átt að tryggja honum kjördæmi, og það jafnvel þvert ofan í vilja flokks hans. Ég skal ekki lá hv. 3. landsk. það, þótt hann langi í sollinn og vilji komast á þing. Við erum vafalaust fleiri með því marki brenndir. En mér finnst hv. þm. ganga helzti langt í því að tryggja sér þingsætið, þegar allt hans löggjafarstarf hér á þingi miðar að því að tryggja honum sérstöðu, og þótt ég vilji ekki beinlínis hryggja þennan hv. þm., get ég þó ekki stillt mig um að minna hann á það, að það er ekki fyrirfram vist, að honum takist ekki að komast á þing þrátt fyrir allt saman. En þetta kemur auðvitað í ljós á sínum tíma, þegar úrslitin um það liggja fyrir.

Ég vil taka undir orð hv. 1. landsk. að mörgu leyti. Hann getur ekki fellt sig við landslistafyrirkomulagið eins og það nú er orðið, enda sýnist lítil sanngirni eða réttlæti í því, að sárafáir kjósendur í einu kjördæmi hafi margföld áhrif á skipun Alþingis í samanburði við þúsundir kjósenda, sem dreifðir eru í ýmsum kjördæmum. Og slíkt fyrirkomulag gengur áreiðanlega á rétt fólksins í hinum dreifðu byggðum landsins, sem svo mjög hefir verið talað um, auk flokkssvikanna, sem boðið er upp á með þessum og slíkum ákvæðum frv.