08.12.1933
Neðri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (1743)

86. mál, lendingarbætur í Flatey á Breiðafirði

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson) [óyfirl.]:

N. leggur til, að þessi till verði samþ. Fyrir henni lá mjög ýtarleg grg., sem sýndi fram á þá miklu þörf, sem er á bryggjugerð í Flatey. Bryggjan, sem er þar nú, er að verða ónýt. Því var farið fram á 2000 kr. ríkisstyrk til bryggjugerðar, að því tilskildu, að á móti komi það vanalega tillag, 2/3 kostnaðarins. Það lágu ekki fyrir n. nóg gögn til þess að sýna fram á, að fullkomin rannsókn hefði farið fram á þessu máli, og vill því n. binda fylgi sitt því skilyrði, að ekkert fé verði látið út fyrr en fulltrygg áætlun um þetta fyrirhugaða mannvirki liggur fyrir og tryggt er, að frá héraðinu komi 2/3 kostnaðar á móti. Verkið yrði auðvitað framkvæmt undir eftirliti hafnarmálastjórnarinnar, — ég hefi talað um það við vitamálastjóra, og hann hefir ekkert á móti því, að málið sé afgr. svo sem hér er lagt til. Ég skal að lokum geta þess, að einn hv. nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og ennfremur, að 2 hv. nm. vantaði á fundinn, þegar n. afgreiddi málið.