27.11.1933
Efri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (1755)

61. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir landið á undanförnum árum veitt talsvert fé til þess að framkvæma mælingar og kortleggja vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Mun vera búið að leggja fram um 27 þús. kr., en er talið, að vanti um 2500 kr. til þess að sá maður, sem verk þetta hefir haft með höndum, geti lokið við teikningar sínar og áætlanir, svo á þeim megi byggja til frambúðar. Nú er það ósk þeirra Rangæinga, sem eiga að búa við ágang þessara vatna, að Alþingi heimili nú þessa litlu upphæð, svo hægt sé að ljúka við þennan óhjákvæmilega undirbúning frekari aðgerða þarna. Að því lýtur fyrri liður þessarar þáltill.

En þá er annar liðurinn undir staflið B. Hann lýtur að því að hjálpa til að verja Inn-Fljótshlíðina fyrir hinum mikla yfirvofandi ágangi Þverár. Í lagabálki þeim, sem samþ. var 1932 um fyrirhleðslur og samgöngubætur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts, var gert ráð fyrir, að ríkið hjálpaði til að verja þessar jarðir frá Hlíðarenda og inn í gegn með mörgum en smáum grjótgörðum. Er talið, að það mundi mega gera nokkuð mikið af þessum görðum, ef ríkið legði fram allt að 9 þús. kr. og bætt þar við þeim litla hluta, sem sýslubúum hér að leggja á móti. Eins og tekið er fram í grg. till., hefir ríkisstj. lagt fram nokkurt fé á undanförnum tveimur sumrum til þessara garða, og hefir þannig tekizt að vernda þá jörðina, sem neðst er af þeim, sem í hættu eru staddar, Hlíðarendakot. þessi garðagerð hefir sýnt þann árangur, að menn hafa trú á, að með þessari aðferð megi verja allar þær fögru jarðir, sem þarna eru í hættu. En samhliða því, að neðsta jörðin komst úr hættu að svo stöddu, hefir áin lagzt meira að innri jörðunum, Fljótsdal og Barkarstöðum og jörðunum þar neðan við. M. a. liggur hún nú fast upp að klettunum við Háamúla, og eru tvær innstu jarðirnar þannig afskornar öllum samgöngum, nema klifrað sé yfir fjallið eða riðin Þverá, sem oft er ófær. Þegar áin er komin framhjá Háamúla, skellur hún á hinu fagra sléttlendi, sem nær frá Múlanum niður að Hlíðarendakoti. Er sérstaklega Múlakotsland í mikilli hættu, ef ekki er þegar aðgert.

Till. miðar að því að ýta undir, að á komandi sumri verði haldið afram eins og undanfarandi sumur að byggja Þessa smágarða, sem fyrst og fremst yrðu gerðir til að vernda land Múlakots og síðan jarðanna þar inn eftir, eftir því sem fé yrði til.

Það má segja, að óviðeigandi sé að koma með slíka fjárbeiðni fyrir þetta þing. En Þverá bíður ekki næsta reglulegs Alþ.; hún er að brjóta niður undirlendið, og 1. frá 1932 ætlast til, að því sé bjargað, ef hægt er, á þann hátt sem byrjað er á. Það gæti munað mjög miklu fyrir þetta mál, hvort haldið er áfram eins og þessi till. gerir ráð fyrir, eða látið reka á reiðanum um þessar varnir.

Ég hygg, að ef þessari till. verður vel tekið, þá ætti hún að koma til hv. fjvn., og legg ég til, að henni verði þangað vísað. Óska ég, að hvort sem hv. n. vill sinna þessu máli eða ekki, þá afgr. hún það fljótt, því annars eru litlar líkur til, að því verði lokið á þessu þingi.