27.11.1933
Efri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (1756)

61. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Út af fyrri lið till. vil ég taka það fram, að í fjárl. fyrir árið 1934, 16. gr. 54, eru veittar 2000 kr. til þess að ljúka mælingum í Landeyjum, og við undirbúning fjárl. gaf Búnaðarfélag Íslands upplýsingar um, að þessar 2000 kr. mundu nægja. Síðan þessi till. kom fram hefi ég óskað eftir skýrslu um það frá Búnaðarfél., hvað þessu starfi liði, því ég vildi vita vissu mína um, hvort óhjákvæmilegt væri að meira en tvöfalda upphæðina, sem til þess er ætluð. En ég hefi enga skýrslu fengið enn frá Búnaðarfél. um þetta efni. Ég vil aðeins skjóta því til hv. n., að hún afgr. ekki till. sínar í þessu máli fyrr en hún hefir fengið fullar upplýsingar frá þeim aðila, sem umsjón hefir með þessu verki, en það er Búnaðarfélagið.

Viðvíkjandi B-lið till. get ég tekið bað fram, að arin 1932 og 1933 hefir verið varið til varna skemmdum af hvera samtals 10900 kr. Þar af hefir ríkissjóður sumpart greitt og sumpart lofað að greiða rúmar 8000 kr. Ég get tekið það fram, að þótt þessi tilraun hafi nú verið gerð, þá er engin fullnaðarreynsla fengin um það, hvort hún kemur að liði. Vörnunum hefir verið þannig hagað, að gerðir hafa verið um 50 þvergarðar út frá bökkum Þverár, frá Hlíðarendakoti og skammt inn fyrir Múlakot, til varnar landbroti á því svæði. Þessir garðar eru gerðir til þess að kasta straumbunganum frá bökkunum, þar sem mest er hættan. Eru þeir flestir stuttir, sumir ekki nema fimm metrar og allir innan við 20 metra nema einn, sem er um 100 metrar á lengd. Í fyrra fékkst því miður ekki hin ákjósanlegasta reynsla um þessa garða. Áin vildi grafa sig á bak við garðana og landbrotið hélt áfram. Nú hefir þegar verið byrjað að draga grjót að til þess að dyngja niður með bökkunum, ef vatnið grefur sig bak við garðana. Fæst ekki fyrr en í vetur reynsla um, hvort það dugir fyllilega. Menn geta gert sér vonir um, að þetta komi að haldi, en full reynsla er enn ekki fengin, og þess vegna finnst mér fyrir mitt leyti varhugavert að ákveða nokkuð um, hvort þessum framkvæmdum verður haldið áfram í sama stíl, fyrr en reynslan er fengin eftir veturinn. Ef reynslan bendir í þá átt, að þetta komi að notum, þá er auðvitað æskilegt, að framkvæmdunum sé haldið áfram. Þó skal ég taka það fram, að ekki mun þess vera kostur að verja allar landbrotajarðirnar í Fljótshlíð með þessum aðgerðum. A. m. k. verður samkv. rannsóknum vegamálastjóra örðugt að vernda tvær jarðir, sem hv. flm. nefndi, Fljótsdal og Barkarstaði, á þennan hátt. Nokkrar fleiri jarðir heldur en þegar er búið að hlaða framundan mun þó að öllum líkindum mega verja.

Eins og menn vita, er hvorki í þessa árs né fyrra árs fjárl. nein fjárveiting til þessara fyrirhleðslna. En þar sem þörfin var mjög aðkallandi og leiðinlegt að sjá góð lönd brotin niður án þess nokkuð sé að gert, þá þótti mér rétt að veita nokkurn styrk; þó ekki eins mikinn eins og 1. um samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts gera ráð fyrir. í 2. gr. er sagt, að varnir fyrir innan Hlíðarenda í Fljótshlíð fyrir ágangi Þverár skuli ríkissjóður kosta að 7/8 hlutum, en sýslufélag Rangarvallasýslu að 1/8 hluta. En þar mun, eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið hjá vegamálastjóra — en hann var allmikið við þessa löggjöf riðinn — hafa verið átt við rækilegan og mikinn varnargarð, sem hlaðinn væri alveg fyrir farveg Þverár, annaðhvort fram af Háamúla eða svonefndum Streytum. Hvað snertir bráðabirgiðavarnir og aðrar slíkar framkvæmdir hygg ég því, að verði að halda sér við þau ákvæði laganna, þar sem segir, að varnir annarsstaðar og flóðgáttir kosti sömu aðilar að 3/4 og 1/4 hluta. Ég sá mér því ekki fært, þar sem engin fjárveiting var fyrir hendi, að verja úr ríkissjóði til að styrkja þessa tilraun — því enn er þetta ekki annað en tilraun — meiru en 3/4 hlutum kostnaðar gegn 1/4 annarsstaðar að. Þóttist ég með þessu ekki beita þá, sem hlut eiga að máli, neinu harðræði, því kostnaðurinn er hér um bil allur verkakaup og hestaleiga, og innansveitarmenn voru látnir sitja fyrir vinnunni, svo féð hefir hér um bil allt runnið til reirra. Þar sem hér var að ræða um varnir fyrir tiltölulega fáar jarðir og engin fjárveiting lá fyrir, þótti mér rétt að telja þessa tilraun ekki að öllu leyti undir ákvæði 3. málsgr. 2. gr. l. frá 1932.

Hér er farið fram á, að varið verði úr ríkissjóði á næsta ári 9000 kr., gegn 1/8 hluta annarsstaðar að, til þess að halda áfram að gera þessa varnargarða frá Múlakoti og inn eftir Fljótshlíðinni. Ég get vísað til þess, sem ég sagði aðan, að vegamálastjóri telur mikinn vafa á því, hvort mögulegt sé að verjast landbroti undan Barkarstöðum og Fljótsdal á þennan hátt, en hinum jörðunum telur hann tök á að bjarga, eða leggur a. m. k. til, að það sé reynt, ef reynslan í vetur sýnir, að þær framkvæmdir, sem gerðar voru í sumar, koma að notum.

Ég vildi aðeins benda á þetta, að það, sem gert hefir verið, er aðeins tilraun, sem reynslan hefir ekki enn sýnt, hvort kemur að fullum notum.