16.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í D-deild Alþingistíðinda. (1805)

34. mál, vantraust á dómsmálaráðherra

Magnús Jónsson:

Ég held jafnvel, að ég hafi lesið það í sjálfu Alþýðublaðinu, að stj. væri búin að segja af sér, svo að ég helt satt að segja, að hv. 2. þm. Reykv. ætti ekki að vera þetta svona alókunnugt. Hinsvegar mun hæstv. forsrh. ekki hafa símað út lausnarbeiðni sína fyrr en eftir þingfundi í gær, svo að hann hefir ekki haft neitt tækifæri til þess að skýra þingheimi frá þessu. Þótt hæstv. forsrh. hafi ekki skýrt frá þessu enn, hefir það samt a. m. k. verið gert svo sennilegt, að því er mér finnst, að hæstv. ríkisstj. hafi sagt af sér, að ég tel, að ekki geti a. m. k. legið á því að ákveða umr. um þessa till. Ég endurtek því þá ósk mína til hæstv. forseta, að þetta verði borið undir þm., svo að ég a. m. k. fái tækifæri til að koma í veg fyrir með atkv. mínu, að stofnað sé til slíks skrípaleiks hér á Alþingi, að fara að ákveða umr. um vantraust á ráðh., sem þegar er farinn frá.

Út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. vil ég segja það, að mér finnst ástæðulaust af honum að stökkva upp á nef sér, þótt ég hafi skýrt frá því hér í þinginu, sem hver blaðlesandi veit, og hv. 2. þm. Reykv. sjálfur veit engu síður en ég, að stj. er búin að segja af sér.