30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. n. hefir skýrt rækilega till. þær, sem n. hefir borið fram við frv. En aðeins vildi ég þó segja það, að að vísu hefði ég kosið, að staðið hefðu svipuð ákvæði um landslistann eins og voru í frv. stj. eins og það var lagt fyrir þingið og n. gekk frá því, þó ég telji þær till., sem n. hefir orðið sammála um að bera hér fram, miða stórum að því að bæta frv. að því er snertir landslistann og að öðru leyti færa frv. til samræmis við það, sem ákveðið er í stjskr., sem búið er að samþ. Ég ætla því ekki að tala um þessar brtt., en ætla aðeins að snúa sér að einni till, sem ég flyt við frv. og er viðvíkjandi kjördeginum. Í frv. er ákveðið, að kjördagurinn skuli vera fyrsti sunnudagur í júlímánuði. Nú hefir því verið haldið fram, að þetta væri gert til þess að bændur eigi hægara með kjörsókn. En ef á að taka einhliða tillit til þess, þá er aðgætandi, að bændur eru ekki einu sinni meiri hl. kjósenda. Það er annar hluti kjósenda, sem kannske er jafnfjölmennur, og það er verkafólkið. Síðast í júní og fyrst í júlí streymir það frá heimilum sínum til atvinnu víðsvegar út um land, og sá fyrirvari, sem það hefir til þess að komast að heiman, er oft svo naumur, að það hefir ekki tækifæri til þess að nota sér þá heimild í kosningal., að kjósa utan kjörfundar. Þetta á kannske ekki sízt við víða úti um land, þar sem fólk þarf að fara langan veg til kjörstaðar, og í kaupstöðunum hagar því oft þannig, að menn eru ráðnir burt með svo stuttum fyrirvara, að þeir hafa ekki tækifæri til þess að kjósa. Þetta kemur sérstaklega niður á fólki, sem fer til síldveiða héðan af Suðurlandi, venjulega fyrstu dagana í júlímánuði. En það getur staðið svo á, að kjördagurinn sé ekki fyrr en viku af júlí. Nú efast ég um, að það sé rétt, að bændum sé þessi kjördagur sá heppilegasti, sem fundinn verði, og byggi ég það á viðtali við ýmsa bændur hér á þingi og aðra, sem kunnugir eru í sveitum. Þeir telja, að a. m. k. hér á Suðurlandi sé eins heppilegur tími milli 23. júní og 1. júlí til þess að sækja kjörfund eins og þegar komið er fram í júlí.

Ég hefi ekki komið fram með þá till., sem var flutt í Nd. af hálfu Alþfl.-manna um það að hafa kjördaginn laust eftir miðjan júní, fyrsta sunnudag eftir 15. júní, heldur flyt hann fram þannig, að það verði síðasti sunnudagur í júnímánuði, sem yrði einhverstaðar á milli 23.—30. júní. í samræmi við þetta breytast ákvæði 14. gr. frv. þannig, að kjörskráin skuli gilda frá 23. júní til 22. júní næsta ár.

Ég hefi svo oft haft tækifæri til þess að tala um þennan kjördag hér í Ed., að ég er orðinn þreyttur á að bera fram þau mörgu rök, sem ég hefi fram fært, en þegar ég þykist hafa bent á góðan kjördag fyrir sveitirnar, sem er síðasti hluti júnímánaðar, þá þætti mér undarlegt, ef bændur á Alþingi vildu ekki taka það tillit til verkafólksins í sjávarplássunum, sem kæmi það betur að hafa þennan kjördag heldur en þegar komið er fram í júlímánuð, að þeir samþ. þessa brtt. mína.

En það er ekkert efamál, að fyrir kaupstaðina Reykjavík og Hafnarfjörð og mörg kjördæmi sunnanlands er fyrsti vetrardagur ákjósanlegasti tími ársins fyrir kjördag, en því hefir verið haldið fram, að óveður geti þá hamlað kjörsókn t. d. á Norðurlandi. Bæði af því, að ég veit, að það þýðir ekki að bera fram till. um haustkjördag, og eins af því, að ég vil taka þessa ástæðu til greina, þá hefi ég farið eins nærri því, sem ég veit, að bændum kemur bezt, og sett kjördaginn eins og stungið er upp á í þessari brtt. Ég vænti þess, að hv. dm. skilji svo við kosningal., að sem flestum kjósendum landsins gefist kostur á að taka þátt í kosningum og hafa þannig áhrif á það, hvernig Alþingi er skipað, og að ekki verði settur kjördagur, sem greinilega yrði til þess að meina fjölmennum hóp landsmanna að taka þátt í kosningu.

Um aðrar till., sem hér liggja fyrir, ætla ég ekki að fara mörgum orðum, en mun með atkv. mínu sýna, hvernig ég lít á þær.