30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

2. mál, kosningar til Alþingis

Pétur Magnússon:

Eins og hv. þdm. hafa séð í nál. á þskj. 212, þá hefi ég ekki að öllu leyti getað orðið samferða meðnm. mínum í stjskrn. Er þess getið í nál., að ég hafi sérstöðu um nokkrar brtt. n. á þskj. 204. Mun ég nú gera nokkra grein fyrir þessum ágreiningsatriðum.

Aðalágreiningsefnið í málinu er, að ég gat ekki fallizt á skoðanir hv. meðnm. um tilhögun á úthlutun uppbótarþingsæta. Í frv. því til kosningal., er stj. lagði fyrir þingið, mátti velja um tvær aðferðir við skipun landslista: að flokksstjórnirnar skipi listann fyrirfram, eða að á listann sé raðað eftir á, þannig að allir frambjóðendur flokks taki sæti á lista, eftir vissum, ákveðnum reglum. Þessu var breytt í Nd., sem felldi úr frv. heimildina til að raða á lista fyrirfram. En nú hefir meiri hl. n. hér tekið upp aftur till. stj. og leggur til, að velja megi um þessar tvær leiðir. Á þetta hefi ég ekki getað fallizt. Veldur því í fyrsta lagi, að ég tel það út af fyrir sig ákaflega óviðkunnanlegt og jafnvel óheppilegt að láta tvennskonar reglur samtímis gilda um þetta atriði. Hvað sem um Alþingi má segja, verður því naumast með rökum neitað, að val þingmanna er svo þýðingarmikið atriði fyrir þjóðfélagið, að það á ekki að vera undir hendingu komið, hverjum reglum er um það fylgt. En svo mundi að vissu leyti verða, ef till. n. næðu fram að ganga. Við einar kosningar gætu flokksstjórnirnar ákveðið að raða fyrirfram á landslista sína, við þær næstu haft óraðaða lista. Og við sömu kosningar gætu sumir stjórnmálaflokkar borið fram raðaða lista, aðrir óraðaða. Þetta kalla ég, að þingmannaval fari eftir hendingu. Skipun þingsins getur að þó nokkru leyti farið eftir því, að hve miklu leyti flokksstjórnirnar sjá sér hag í að beita því valdi, sem þeim er veitt, til að ráða vali uppbótarþingmanna. En slíkan losarabrag á mikilvægustu þáttum stjórnskipunarinnar get ég ekki fellt mig við. Hér er um tvær leiðir að velja. Hvor hefir sína kosti og sína ágalla. En þingsins er að meta kosti og galla hvorrar fyrir sig og velja á milli, taka þá, sem betri þykir, og hafna hinni. Valið getur verið erfitt. En sú skylda fylgir nú yfirleitt þingstörfunum að velja og hafna. Og ætla verður, að þinginu sé betur trúandi til að finna rétta úrlausn þessa máls í eitt skipti fyrir öll en mismunandi vel skipuðum flokksstjórnum í hvert sinn.

Ég er þannig ekki í neinum vafa um, að aðrahvora leiðina beri að velja og hafna hinni. Hitt hefi ég verið í meiri vafa um, hvora leiðina bæri að velja. Munurinn er í raun og veru mjög mikill á þessum tveim aðferðum. Ef leyft er að raða á lista fyrirfram, þá er afleiðing þess sú, að miðstjórnum hinna pólitísku flokka í landinu er raunverulega gefið vald til að velja allt að 11 menn á þing, sem sé í öll uppbótarþingsætin. Það breytir engu í þessu efni, þó stjskr. mæli svo fyrir, að annaðhvert sæti 10 efstu manna á lista skuli skipað frambjóðendum. Í þessi 5 frambjóðendasæti mundi oftast auðvelt að velja menn, sem ættu kosningu vísa í kjördæmi sínu. Þá koma þeir vitanlega ekki til greina í uppbótarsæti og röðin kemur að þeim næsta. En auk þess ræður fylgi frambjóðanda í hans eigin kjördæmi engu um það, hvort hann nær uppbótarþingsæti, ef hann fellur í kjördæmi. Því ræður aðeins sæti hans á listanum. Ef hann aðeins fær meðmælendur í kjördæmi, getur hann hlotið uppbótarsæti, þó hann sé þar algerlega fylgislaus. Sýnir þetta, að miðstjórnin ræður eða getur ráðið vali uppbótarþm. flokks síns alveg óskorað, ef heimild er til að raða fyrirfram á listana.

Nú má vafalaust með miklum rétti segja, að af þessu stafi engin stórhætta fyrir þjóðfélagið. Flokksstjórnirnar myndu án efa að jafnaði velja starfshæfa og dugandi menn á landslista sína og starfshæfi þingsins mundi þannig ekki verða í neinni hættu, þó þessi aðferð væri viðhöfð. Og þar sem 38 þm. jafnan verða kosnir beinlínis af kjósendum, þarf heldur ekki að óttast, að viðhorf þingsins yrði mjög á annan veg en kjósendanna á hverjum tíma. En þrátt fyrir þetta tel ég, að tilhögunin beri í sér ýmsa ágalla. Þó að stjórnmálaflokkar beri fram landslista, þá mundi raunin verða sú, að minnsta kosti um stærri flokkana, að þeir hefðu frambjóðendur í flestum kjördæmum. Þeim er ætlað að safna atkvæðum fyrir flokkana og um þá stendur baráttan í hverju kjördæmi. Kjósendurnir skeyta því lítt, hverjir eru á landslista þess flokks, er þeir styðja. Kosning uppbótarþingmanna yrði því, ef svo mætti segja, „ópersónuleg“. En afleiðing þess er sú, að flokksstj. þurfa minna tillit að taka til vilja kjósendanna um röðun á landslista en við framboð í einstökum kjördæmum. Og einmitt þetta er varasamt. Flokksstjórnirnar hafa vissulega gott af að fá eitthvert aðhald frá kjósendunum. Ef það aðhald hverfur, er hætt við, að flokksstj. gætu leiðzt til að velja á landslistana meira með tilliti til flokkshagsmuna en þjóðarhagsmuna. (JónÞ: Ætli flestir flokkar álíti nú ekki, að það fari saman?). Má vel vera, en mér finnst, að reynslan hafi áþreifanlega kennt okkur, að það gerir það eigi ávallt. En hvað sem því líður, tel ég engum efa undirorpið, að heppilegra sé, að þingmennirnir finni til ábyrgðar gagnvart þjóðinni en gagnvart flokknum. En á því gætu ef til vill orðið nokkrir misbrestir, ef það í framkvæmdinni væru flokksstj. einar, er réðu yfir endurkosningu þeirra.

Hv. frsm. taldi fyrirframröðun það sérstakl. til gildis, að þm. yrðu á þann hátt minna bundnir við hagsmuni einstakra kjördæma eða stétta og litu þess vegna með meiri víðsýni á málefnin. Ég skal ekki bera móti, að þessa mundi að einhverju gæta, þó nokkuð telji ég það vafasamt. En jafnvel þó vonir hv. þm. í þessu efni rættust, er lítil bót ráðin á þeirri meinsemd, er hann vill lækna. Hrossakaupapólitíkin hverfur ekki úr þinginu fyrr en kjósendurnir hafa gert sér það ljóst, að hver þm. á fyrst og fremst að vera þm. þjóðarinnar og þar á eftir kjördæmis síns. Og sá lærdómur kemur vonandi smám saman með auknum stjórnmálaþroska þjóðarinnar.

Að þessu athuguðu hika ég eigi við að kjósa hina tilhögunina, sem um er að ræða, sem sé að láta kjósendurna sjálfa með atkv. sínum ráða því, hverjir hreppi uppbótarsætin. Ég fæ ekki betur séð en að sú aðferð sé í fullu samræmi við önnur ákvæði kosningalagafrv. og hinnar nýju stjskr. og þá lýðræðishugsjón, sem bak við hana liggur. Ef hagsmunum þjóðarinnar er bezt borgið með því, að hún velji sjálf og milliliðalaust ¾ hl. þingsins, þ. e. hina kjördæmakosnu þingmenn, virðist hið sama hljóta að gilda um uppbótarþingmennina. Sama hlutverkið er þeim öllum ætlað: að leysa úr vandamálum þjóðarinnar í heild. Og fyrir þingmennina mun það jafnaðarlega verða til styrktar í starfi þeirra, að standa í sem nánustu persónulegu sambandi við kjósendur sína. En fyrir slíku sambandi mun verða meiri trygging, ef þeir verða að leita sér kjörfylgis meðal fólksins, heldur en ef einhliða val flokkstjórna á að ráða um þingsetu þeirra.

Ég hefi ekki ástæðu til að fara nánar út í þær reglur, sem frv. í núverandi mynd setur um úthlutun uppbótarsætanna. Aðeins vil ég taka fram, að ég felli mig mjög vel við tilhögunina, „víxlregluna“, sem hún hefir verið nefnd hér á þinginu. Mikil sanngirni virðist mæla með, að tekið sé tillit til hvorstveggja — fólksfjölda kjördæmanna og þess fylgis, sem þingmannsefni nýtur í hlutfalli við keppinautana.

Hv. frsm. hreyfði því, að útilokun fyrirfram raðaðs lista bryti í bága við ákvæði hinna nýju stjórnskipunarlaga. Ég get með engu móti fallizt á þessa skoðun hans. Stjskr. setur takmarkanir aðeins á annan veginn. Hún kveður á um, að á landslista megi ekki vera færri en 5 frambjóðendur í kjördæmum utan Rvíkur. En hún segir ekkert um, hvað þeir megi verða flestir, þ. e. talan er ekki takmörkuð upp á við. Því fer þannig fjarri, að stjskr. banni, að allir frambjóðendur flokks séu á landslista hans.

Ég hefi þá stuttlega gert grein fyrir aðalágreiningsefninu milli mín og hv. samnefndarm. minna í stjskrn. og skal aðeins lauslega drepa á eina eða tvær brtt. aðrar, sem ég hefi áskilið mér óbundið atkvæði um. Er það sérstakl. 27. brtt., þar sem lagt er til, að við atkv.tölu frambjóðanda í kjördæmi skuli bæta þeim persónul. atkv., er hann fær á landslista, áður en röð hans á listanum er ákveðin. Ég tel þetta óeðlilega og óheppilega reglu, er leitt gæti til mjög leiðinlegrar samkeppni milli flokksbræðra. Og hætt er við, ef þessi regla yrði lögfest, að það yrðu eigi ávallt „beztu“ mennirnir, sem flest fengju persónuleg atkvæðin á landslista. Ef til vill fremur hið gagnstæða.

Þá er ég og í nokkrum vafa um, hvort ég get fylgt till. n. um litreikning atkv. frambjóðenda í tvímenningskjördæmum. Að vísu er ég þeirrar skoðunar, að ýmislegt mæli með því, að útilokað sé, að fallinn frambjóðandi í kjördæmi nái uppbótarsæti, ef flokksbróðir hans hefir verið kosinn. Ég held, að heppilegast sé, að þm. hvers flokks séu sem mest dreifðir um landið. En hitt er rétt, sem hv. 2. þm. Árn. benti á, að tvímenningskjördæmin væru beitt nokkrum órétti með því að gera þeim erfiðara að ná uppbótarsætum en einmenningskjördæmum.

Það hefir ekki verið mér sársaukalaust að þurfa nú að leiðarlokum að verða að nokkru viðskila við hv. 1. landsk. í þessu máli. Í langri samvinnu um það hefir mér verið ljúft að hlíta forystu hans, og ljóst er mér, að þær umbætur, sem nú hafa fengizt á kjördæmamálinu, eru meira hans verk en nokkurs annars manns. Og þó þær séu að ýmsu leyti ófullkomnar, eiga þær þó að tryggja, að hér verði framvegis búið við lýðræðisfyrirkomulag.