05.12.1933
Neðri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (1885)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég verð að segja það, að ég skildi ekki fullkomlega fyrirspurn hv. þm. Ísaf. Mér skildist helzt, að hann spyrja að, hvort síldareigendur ættu að borga allan hallann af síldareinkasölunni. Hafi það í raun og veru verið innihald fyrirspurnar hans, þá get ég sagt honum, að mér hefir aldrei dottið slíkt í hug, enda engin tilmæli komið um það frá skilanefnd. Hv. þm. má því vera rólegur. Ég fyrir mitt leyti hefi litið svo á, að ekki væri um annað að gera en taka skellinn af þessu fyrirtæki yfir á ríkissjóðinn, enda þótt hann sé nokkuð stór.

Að einkasalan hafi verið lögð niður nokkuð hranalega, kemur mér ekki við; fyrir það getur hv. þm. Str. svarað, ef honum sýnist svo. Annars mun það álit flestra, er til þekkja, að fyrirtæki þetta hafi ekki verið lagt niður fyrr en fullur nauður rak til. Það er rétt, að skilanefndin hefir orðið dýr, en það mátti alltaf búast við því, að uppgerðin á þessu sukki kostaði mikla peninga.

Ég vil ekkert um það segja á þessu stigi málsins, hvort skilanefndarmennirnir hafi farið hyggilega að í starfi sínu eða ekki; til þess að geta dæmt um slíkt, vantar mig betri upplýsingar.