09.12.1933
Sameinað þing: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (1887)

64. mál, milliþinganefnd um launamál, starfsmannafækkun o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal vera fáorður um till. Eins og ég hefi áður minnzt á, hefði ég viljað hafa þessa till. í færri liðum nú, því ég hefi, satt að segja, litla von um, að n. verði búin í haust að fullgera till. um öll þessi mál, sem henni er falið að undirbúa undir næsta þing. Það, sem ég vil nú leggja áherzlu á, er það, að ef n. virðist svo, að hún fái ekki lokið að fullu störfum sínum fyrir næsta þing, þá leggi hún samt allt kapp á að hafa lokið við till. sínar út af 1. lið till. fyrir þann tíma, láti afgreiðslu hans sitja í fyrirrúmi. Veit ég, að það er vilji allra vor flm. aðaltill. og margra annara hv. þm., og ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. séu því meðmæltir. Er og nauðsynlegt, að ákvörðun um þau atriði, er þar undir teljast, verði gerð á næsta þingi, og því máli ekki slegið á frest, vegna þess hversu verksvið n. var víkkað, og það sannist ekki, sem suma hefir grunað, að síðari liðirnir verði til þess, að þeir af starfsmönnum ríkisins, sem hlutfallslega hafa haft hæst laun, fái að njóta þeirra miklu lengur en skyldi.