08.12.1933
Neðri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (1894)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég bað um það hér fyrir nokkrum dögum, að umr. um þetta mál yrði frestað, svo að ég gæti fengið frekari upplýsingar frá skilanefnd síldareinkasölunnar. Nú hefi ég fengið þessar upplýsingar með bréfi, sem mér barst í fyrradag, og ég held, að ég geti ekkert óhlutdrægara gert en að lesa þetta bréf upp fyrir hv. d. Það hljóðar svo:

„Reykjavík, 6. des. 1933.

Samkvæmt munnlegri beiðni hr. skrifstofustjóra Vigfúsar Einarssonar leyfum við okkur hér með að senda yður, hr. dómsmálaráðherra, frekari greinargerð í sambandi við umræðurnar á Alþingi út af fyrirspurn alþm. Jóhanns Jósefssonar.

1) Um það, hvað við höfum greitt umboðsmönnum búsins innanlands, og

2) hvernig á því stendur, að hrm. Theodór B. Líndal hefir annazt málflutning fyrir síldarsaltendur í 3 málum, er þeir hafa höfðað gegn búinu.

Við viljum fyrst taka fram, að við gengum út frá því í síðasta bréfi okkar, að fyrirspyrjanda væri ljóst, að margskonar greiðslur og kostnaður hafi verið samfara búsmeðferðinni annar en sá, er við nefndum í bréfi okkar, en við skildum fyrirspurnina svo, að óskað væri upplýsinga um laun nefndarmanna og starfsfólksins á skrifstofu nefndarinnar hér í Reykjavík.

Við höfum einnig gengið út frá því, að um „loyala“ fyrirspurn væri að ræða, að það væri ekki tilætlunin að gera okkur á nokkurn hatt tortryggilega í starfi okkar eða að hafa okkur að skotspæni á Alþ.

Við höfum reynt að framkvæma starf okkar eftir beztu getu, en þar sem um svo umfangsmikið bú er að ræða, má vel vera, að eitthvað hefði getað farið betur úr hendi.

Ad. 1) Þegar Síldareinkasalan varð gjaldþrota, lágu óseldar hér á landi um 60000 tn. af saltsíld, aðallega á Siglufirði, á Eyjafirði, á Akureyri og á Austfjörðum. Okkur var því nauðsynlegt að hafa umboðsmenn á þessum stöðum, til þess að hafa eftirlit með þessari síld, sjá um viðhald hennar, afhendingu og margt fleira í því sambandi, t. d. aðgreinina og útvötnun á þeirri síld, er okkur tókst að fá markað fyrir í Þýzkalandi. Einnig til þess að sjá um tómar tunnur, salt o. fl. Eins og kunnugt er, var einkasalan tekin til gjaldþrotaskipta í des. 1931, og þá ekki sölumarkaður fyrir þessa síld, nema í smáum stíl, smátt og smátt. Mikið af síldinni varð að bræða (um 22000 tunnur), og varð því að sjá um móttöku þeirra tunna frá þeim, er þær lágu hjá, sjá um flutning á heim, og á Siglufirði þurfti að hafa eftirlit með bræðslunni, láta þvo upp tunnurnar undan síldinni, svo að þær yrðu seljanlegar aftur, o. m. fl. Við viljum taka það fram, að bræðsla fór fram á okkar kostnað í ríkisverksmiðjunni, þar eð verksmiðjan vildi ekki taka síldina til bræðslu á annan hátt.

Af þessum sökum urðum við að hafa umboðsmenn á Siglufirði, Akureyri og á Austurlandi.

Við höfum litið svo á, að óhjákvæmilegt hafi verið að hafa umboðsmenn og að þeir hafi gert hið bezta gagn. Auk þess urðum við að hafa þá til þess að hafa eftirlit með talningu á öllum þessum eignum búsins, svo að víst væri, að öll kurl kæmu þar til grafar og fullt eftirlit með því, að allar eignir kæmu í okkar hendur.

Það ætti að vera ljóst, þar sem við nú höfum náð inn um 300000 kr. í peningum fyrir eignirnar, að frádregnum öllum kostnaði, að slíkt hefir útheimt mikla vinnu, umsjá og fyrirhöfn, og við höfum ekki getað séð sjálfir um hin einstöku atriði á þeim stöðum, þar sem eignirnar voru, og við gerum ráð fyrir, að ekki hefði orðið minni ástæða til fyrirspurnar, ef við hefðum vanrækt fullkomið eftirlit.

Við réðum því umboðsmenn á Siglufirði, Akureyri og á Austfjörðum. Umboðsmanni okkar á Siglufirði, Þormóði Eyjólfssyni, höfum við greitt alls 4000 kr. fyrir alla vinnu hans, og er henni nú löngu lokið.

Umboðsmaðurinn á Austfjörðum, Árni Jónasson, Svínaskála, fékk alls greiddar 1200 kr. fyrir vinnu sína, og er henni einnig löngu lokið. Umboðsmaður okkar á Akureyri, Vilhjálmur Þór, hefir fengið greiddar 2500 kr., en við gerum ráð fyrir, að við þurfum að greiða honum eitthvað til viðbótar.

Ad. 2) Þeir 3 saltendur, er mál höfðuðu gegn búinu, fóru þess á leit við Theodór B. Líndal hrm., að hann flytti þau mál frá þeirra hendi. Líndal átti tal við nefndina um þetta og kvaðst hafa skýrt nefndum saltendum frá, að hann væri í félagi við annan nefndarmanninn, en að saltendurnir þrátt fyrir það óskuðu, að hann færi með málin fyrir þeirra hönd, í trausti þess, að hann og nefndarmaðurinn ræktu skyldur sínar með fullri samvizkusemi. Um þetta má vísa til hv. alþm. Guðbr. Ísbergs, er var milligöngumaður milli saltendanna og Líndals um þetta.

Nefndin leit svo á, að hún gæti ekki haft afskipti af því, hverjum væri falin sú málafærsla; því yrðu saltendur að raða. En ef svo á að skilja orð hv. alþm. Jóhanns Jósefssonar, að meðundirritaður Lárus Fjeldsted hafi í þessum málum á nokkurn hátt vanrækt malflutning sinn fyrir búið, þá beri að telja það mjög óviðeigandi, enda hefir þegar áður verið skyrt frá, að 2 af þessum málum hefir búið algerlega unnið. Í hinu þriðja var búið að vísu dæmt til að greiða nokkurn hluta kröfunnar, en það, sem mestu varðaði í því máli, var það, að kröfu stefnanda um haldsrétt í verðmætum, er hjá saltandanum lágu, var vísað á bug, og sömuleiðis kröfu hans um, að krafan hefði forgang í eignum búsins.

Skilanefnd Síldareinkasölu Íslands.

Sv. Guðmundsson. Lárus Fjeldsted.

Til dómsmálaráðherra

Magnúsar Guðmundssonar“. Í þessu bréfi eru, eins og hv. dm. hafa heyrt, þær upplýsingar, sem sérstaklega var beðið um. En ég vil taka það fram, að ég er mjög leiður yfir því, að skilanefndin skyldi ekki þegar í fyrra bréfi sínu skýra frá, hvað hún hefði greitt umboðsmönnum sínum, því að fyrirspurnin gaf tilefni til þess. Viðvíkjandi hinu atriðinu, þá mun það mjög ótítt, að málafærslufélagar flytji mál hvor á móti öðrum, og taldi ég alveg útilokað, að slíkt kæmi fyrir. Í þessu tilfelli stendur dálítið sérstaklega á, og hefir þetta verið gert fyrir milligöngu hv. þm. Ak. Það er auðsætt, að síldareinkasalan hefir ekki skaðazt á því, þar sem hún hefir unnið þau mál, sem hér um ræðir.