08.12.1933
Neðri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í D-deild Alþingistíðinda. (1898)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Mér þykir fyrir því, að ég hefi með þessari fyrirspurn lagt helzt til mikið erfiði á hæstv. ráðh., en verð samt að benda á það, að sú aukafyrirhöfn, sem hæstv. ráðh. hefir haft af því að upplýsa þau atriði, sem hér um ræðir, getur tæplega talizt mér að kenna, vegna þess, að ef skilanefndin hefði lagt pappírana á borðið strax í upphafi málsins, þá hefði hæstv. ráðh. ekki þurft að ómaka sig þrisvar í ræðustólinn til þess að skýra þetta mál.

Af því bréfi, sem lesið var upp hér í d. og undirritað er af skilanefndarmönnum, mátti glöggt raða það, að þessir herrar telja það einhverja persónulega móðgun við sig, að þm. Vestm. hefir gerzt svo djarfur að spyrja um þau atriði, sem fyrir liggja á þskj. 94. Það er nú svo, að mér var það vel ljóst áður, að það er ekki vinsælt hjá öllum mönnum, að þm. hreyfi við svona hlutum eins og hér um ræðir. Þeir, sem að þeim standa og komizt hafa í krásina, vilja gjarnan fá að vera í friði og þykir það óþarfa afskiptasemi, ef einhverjir þm. spyrja um kostnað o. s. frv. hér stendur svo á, að síldareinkasalan er fyrirtæki, sem á sínum tíma sérstaklega varðaði sjútvn., og sömuleiðis er það viðurkennt af öllum aðilum, að þeir, sem skiptu við síldareinkasöluna, hafi orðið sérstaklega illa úti.

Í þessum umr. hefir ekki verið dregið fram eitt atriði, og er það mér að kenna, þar sem mér láðist að minnast á það, en það er um síldarvíxlana á Austfjörðum, hver hafi orðið málalok með þá, eða hverjar horfurnar séu. Ef hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um þetta, þá þætti mér vænt um það. Það var upplýst á síðasta þingi, að þar hefði verið horfið svo frá málum, að eftir síðasta starfsár síldareinkasölunnar væru sjómenn og útgerðarmenn þar sjálfir ábyrgir fyrir því, sem til þeirra hafði verið borgað; að víxlarnir, sem borgaðir hefðu verið, hvíldu á herðum sjómannanna sjálfra. Þegar litið er á þau átakanlegu viðskipti, sem þessi stofnun hafði við þá menn, sem þennan landshluta byggja — um Norður-, Vestur- og Suðurland var áður kunnugt —, þegar þess er gætt, hversu mjög þeir hafa farið varhluta, sem skiptu við einkasöluna, þá get ég ómögulega farið að biðja þá háu herra, sem nú sitja í skilanefnd síldareinkasölunnar, neinnar afsökunar á því, þó að ég krefjist upplýsinga um það, sem öllum landslýð er ljóst, að kostnaðurinn við að koma þrotabúi síldareinkasölunnar í lög hefir frá upphafi vega sinna verið óhæfilega hár. þessi staðreynd er svo ljós, að ekki þýðir á móti að mæla, enda hefir það verið upplýst undir umr. um málið, að skilanefndinni er þetta ekki síður ljóst en öðrum, þar sem þeir draga undan að skýra frá því, að þeir hafi auk alls annars tilkostnaðar, auk þess að hafa báðir 141/2 þús. kr. í laun fyrsta árið og 91/2 þús. kr. síðara árið, líka haft umboðsmenn á þremur stöðum, sem hafa fengið í sinn hlut svo þúsundum skiptir. Eftir þeim upplýsingum, sem nú komu, er búið að greiða þessum mönnum 7700 kr., sem skilanefndinni fannst í fyrra bréfi sínu alls ekki vert að nefna, og ennfremur er það líka upplýst, að enn séu ekki öll kurl komin til grafar og eftir sé að borga út enn meira.

Með hliðsjón af því, hve sjómenn og útgerðarmenn hafa hér borið skarðan hlut frá borði, þá virðist mér alveg nauðsynlegt, að það sé gert lýðum ljóst, hvernig með þessi mál hefir verið farið, síðan síldareinkasalan var lögð niður. Ég ætla ekki að gefa þessu neitt sérstakt nafn, en ég býst við, að hv. dm. geti verið mér sammála um, að svo hafi verið með þessi mál farið, að það sé sízt lofsvert.

Í bréfi skilanefndarinnar segir ennfremur, að þeir hafi gengið út frá því, að aðeins hafi verið átt við í fyrirspurninni kostnað hann, sem leitt hefði af skrifstofuhaldi hennar hér í Rvík. Í þessari fyrirspurn var hvergi með einu orði gefið í skyn, að svo væri. Þar sem hér er um tvo svo skelegga herra sem þessa að ræða, þar sem annar er hæstaréttarmálaflm., en hinn bankaráðsformaður, þá þykir mér það leitt þeirra vegna, að þeir skuli halda þessu fram.

Þá er það fyllilega upplýst, að sú einkennilega aðferð hefir verið höfð við þennan málaflutning, sem síldareinkasalan hefir átt í innanlands, að sama firmað hefir bæði sótt og varið. Um það mun það vægast sagt, að það sé í fyllsta máta óviðkunnanlegt. Hæstv. ráðh. hefir og upplýst, að þetta sé alveg óvenjulegt.

Hv. þm. Ak. stóð hér upp og sagði, að þessi málsmeðferð hefði verið með skaplegum hætti, og vil ég engan veginn rengja það. En það haggar þó ekki þeirri staðreynd, að hér sé um alveg óvenjulega aðferð að ræða í flutningi mála. Þó að það hafi verið eftir ósk síldarsaltenda á Siglufirði, að Theodór B. Líndal tók málið að sér, og þó að hann hafi þar sjálfur haft persónulegra hagsmuna að gæta, þá réttlætir það ekki nokkurn skapaðan hlut ha aðferð, að sama firmað sæki og verji í sama máli, eins og hér hefir átt sér stað.

Eitthvert stærsta málið hér innanlands er það, sem snertir ágreining um, hvort ríkissjóður eða Landsbankinn eigi að bera tap vegna einkasölunnar, og fellur vitanlega á annanhvorn aðilann að bera tapið. Það sýnist næsta skoplegt að eyða miklu fé í þessi málaferli um það, hvort ríkissjóður eigi að tapa þessum 300 þús. kr. beint út af ábyrgð fyrir síldareinkasöluna vegna skuldar í Landsbankanum eða sem eigandi Landsbankans. (Forseti:

Þetta var aðeins aths.). Hún er nú líka að verða búin. Ég heyri sagt, að það sé ekki venja að gera ályktanir út af fyrirspurnum og skal ekki þreyta hæstv. forseta með neinu slíku. En um leið og ég vísa algerlega á bug þeim aðdróttunum frá skilanefndarmönnunum, að mér hafi gengið annað til en að fá sannar upplýsingar um þetta, þá vil ég beina alvarlegri áskorun til hæstv. ríkisstj. um að taka svo í taumana gagnvart kostnaðarhliðinni við rekstur skilanefndarinnar, að þar verði á töluverðar umbætur frá því, sem nú er. Ég vona, að hæstv. ráðh. sé mér samdóma um, eftir þær upplýsingar, sem fram hafa komið, að fyllsta ástæða sé til, að þetta verði athugað af stj.