15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (1941)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Tryggvi Þórhallsson:

Ég tel það óheppilegt, að þessar umr. skuli hafa komizt inn á þær brautir, að farið er að gera upp sakir við ýmsa menn, sem alls enga aðstöðu hafa til að svara fyrir sig á þessum vettvangi. Ég vil taka undir ummæli hv. 1. þm. Reykv., að þær eigi að gera upp á öðrum stað. Og ég skal taka það fram, að hvorki í till. sjálfri, sem hér liggur fyrir, né í framsöguræðu hv. fyrsta flm. var nokkurt minnsta tilefni gefið til þess að beina umr. inn á þetta svið.

Þá skal ég koma inn á það atriði, sem hv. þm. G.-K. hefir dregið fram. Það er, hvernig hann orðaði það, sem hér liggur fyrir, „að það sé, hvort eigi að gefa góðtemplarareglunni 150 þús. kr.“. Ég verð að segja, að það er rangt að túlka það mál með þeim orðum, sem hann gerði.

Ég hefi kynnt mér talsvert viðskipti þessara nágranna, Alþingis og reglunnar. í raun og veru er hér um að ræða landamerkjamál, og ég vil taka undir ummæli hv. 1. þm. Reykv., að það er ekki vansalaust, hvernig það mál hefir verið flutt á hendur templurum. Þegar ég gerðist einn af flm. þessarar þáltill., var það meðfram af því, að ég áleit, að Alþingi hefði farizt illa við góðtemplararegluna í þessu máli, og þá þáltill., sem afgr. var frá síðasta þingi, mætti skoða sem viðurkenningu af hálfu Alþingis um, að reglan hefði orðið hart úti. Þetta er önnur ástæðan til þess, að ég hefi orðið meðflm. Þessarar þáltill., vitandi vits, að við erum að kaupa þessa eign hærra verði heldur en hún í raun og veru er verð. Hin ástæðan er sú, að ég tel sérstaka ástæðu til þess að efla bindindisstarfsemina í landinu, og fyrst og fremst í þessum bæ.

Ég vil vekja athygli á því, hvernig þessi till. er orðuð. Það er beint tekið fram, að þessu fé skuli varið til þess að reisa nýtt hús, sem jafnan verði í eign og til afnota fyrir góðtemplararegluna, m. ö. o., þessu fé á að verja til bindindisstarfsemi í landinu. Það er því alveg rangt orðað, að hér sé verið að „gefa“ reglunni fé. Það er sérstakt tilefni til þess, og það er viðurkennt af hv. 2. þm. Reykv., að samhliða þeirri breyt., sem verður á þessari löggjöf, eigi að efla bindindisstarfsemina í landinu, og þegar hæstv. Alþ. hefir orðið til þess að gera þeirri starfsemi ómögulegt um sitt húsnæði, þá liggur það beint við, að raðstafanir verði gerðar um fjarveitingar til þess að láta hennan félagsskap reisa sér nýjan samastað fyrir starfsemi sína hér og úti um land.