15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (1944)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Flm. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Mér þykir það í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að menn láti ýmsar tilfinningar sínar í ljós í sambandi við þessa till., og ýmiskonar óánægja og gömul sár ýfist upp eftir þá baráttu, sem fram hefir farið á síðasta ári, og þá sérstaklega síðustu mánuðina. Ég vil samt skora á hv. þdm. að láta það ekki hafa áhrif á dómgreind sína að því er snertir þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, því að það er annað og meira, sem hún fer fram á, heldur en hvernig orðum hefir verið hagað í viðskiptunum um bannmálið á síðasta ari. Mig tekur það sárt, þegar farið er út fyrir takmörk velsæmis, sérstaklega í þessu stóra vandamáli, sem nú aftur hefir verið leyst með atkvæðagreiðslu þjóðarinnar, og sem maður verður að vona, að verði ekki umræðuefni í bili í þessu landi. Og eftir þeim straumhvörfum, sem orðið hafa bæði hér á landi og víðsvegar úti um heim, virðist allt benda til þess, að svo verði ekki, a. m. k. ekki í bili.

Ég held, að nú megi svo heita, að úr því sé skorið í bili, hver leið verði farin í baráttunni gegn ofnautn áfengis. Og það væri göfugt, ef nú væru látin niður falla öll illindi í sambandi við þá baráttu, sem búin er. Mér finnst sú ástæða, sem hv. þm. G.-K. aðallega beitti fyrir sig, næsta veigalítil, nefnilega sú, að nú væru þeir menn við völd í reglunni, sem hefðu farið óvarlegum orðum um andstæðinga sína. Ég álít það, sem fór fram í baráttunni fyrir 2–3 mánuðum síðan, aukaatriði. Með atkvgr. hefir skapazt nýtt, algerlega nýtt ástand í þessu efni hér á landi, og ber eingöngu að líta á það, sem framundan er. Ég geri ráð fyrir því, að baráttan gegn ofnautn áfengis og þeim hörmulegu afleiðingum, sem þar af koma, snúist nú í þá átt að verða barátta fyrir persónulegu bindindi. Allt bendir til þess, að reglan muni aftur taka að sér forstöðu þess starfs að aðstoða einstaka menn, sýna þeim góðvild og kærleika, hjálpa þeim til þess að verða nýtir borgarar; og jafnframt vernda aðra frá því að verða bæði sér og þjóðfélaginu til skaða og skammar. Og nú, þegar allar líkur eru á því, að þetta verði aðalverkefni reglunnar, þá álít ég, að deilur í sambandi við bannbaráttuna eigi niður að falla. Ég er einn af þeim góðtemplurum, sem hafa fundið til þess nú á síðari tímum, að reglan hefir ekki gefið nógan gaum að þessu verkefni, sem er og hlýtur að verða hennar aðalhlutverk. En nú er þess að vænta, að upp verði tekið sterkt, persónulegt starf á þessu sviði, að gera íslendinga að bindindismönnum. Það er ekki von til þess, að aðrir en þeir, sem trúa því, að þetta sé gott og göfugt málefni, styðji það. En það eru ýmsir þeirrar skoðunar, þótt þeir séu ekki sjálfir bindindismenn, og er gott eitt um það að segja. En þeir, sem beita sér fyrir málefnum reglunnar, verða oftlega að leggja á sig mikla fyrirhöfn, fjárútlat og fornir, — það kann alþýða manna að virða, og það er aðalatriði þessa máls. Í samræmi við þennan alþýðuvilja er þáltill. okkar flutt, og er mikið undir því komið, hvernig Alþ. snýst við henni. — Sú ástæða hv. þm. G.-K., að við templarar höfum verið tannhvassir eða jafnvel ókurteisir í viðræðum um bannið, er því alls ekki frambærileg í þessu máli. Ástæður hv. 2. þm. Reykv. eru heldur ekki sem haldbeztar. Hann hengir sig í það, að lóðin sé ekki nema 20 þús. kr. virði samkv. fasteignamati og vill, að ríkið kaupi lóðina fyrir 30 þús. kr. og hjálpi svo templurum til þess að flytja hús sitt á annan stað í bænum. Þetta er afstaða kaupmannsins, sem aðeins sér gildi hlutarins í krónum.

Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Reykv., að kynni maður sér sorgarsögu þessa lóðamáls allt frá 1887 til þessa dags, þá komast menn að þeirri niðurstöðu, að það eru hörð viðskipti, sem Alþingi hefir átt við templara út af þessari lóð. Enda þótt nokkur hluti þessarar lóðar sé með þeirri kvöð til Alþingis, að taka megi lóðina og láta flytja húsið burt, þá má Alþingi ekki einblína á þá kvöð. Þetta er ekki bara kaup og sala. Alþingi verður að taka það með í reikninginn, að þessi félagsskapur er búinn að hafa þarna heimili sitt í ein 40 ár, og eigi að hrekja hann þaðan, er það skylda Alþingis að sjá góðtemplarareglunni fyrir nýju, viðunandi heimili. Hver veit nema góðar undirtektir hv. þm. í þetta mál gætu orðið til þess, að templarar yrðu ekki framvegis eins tannhvassir í garð þeirra eins og stundum hefir orðið.

Sumstaðar hefir sú leið verið farin, að ríkisvaldið hafi bein afskipti af þessum málum. Nýlega hefir verið komið á því fyrirkomulagi í Danmörku, að sérstakur starfsmaður ríkisins hafi eftirlit með allri bindindisstarfsemi. Ég held, að þetta fyrirkomulag taki okkar ekki fram. Það mundi sýna sig, ef viðskipti góðtemplarareglunnar og Alþingis tækjust vel, að okkar leið — frjáls bindindisboðun — yrði áhrifameiri en það, að setja einhvern mann af ríkisins hálfu yfir þessi mál. Ég lít svo á, að leysi hv. Alþingi málið á grundvelli þessarar þáltill. okkar, þá sé þar með lagður grundvöllur fyrir mikið og blessunarríkt starf. Og ég vil láta þá ósk mína í ljós, að sú hv. n., sem fær mál þetta til athugunar, hafi það í hyggju, en ekki bara fasteignamatsvirðingu þessarar lóðar eða fornar væringar bannmanna og andbanninga.