15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (1947)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ólafur Thors:

Hv. þm. Seyðf. sagði í ræðu sinni, að sér kæmi það undarlega fyrir sjónir, að ég væri að kveina og kvarta yfir því, þó á mig væri ráðizt, þegar ég hefði haft þau orð um menn reglunnar, sem hann vitnaði til úr ræðu frá síðasta þingi. Þessi ræða er óyfirlesin, og er varhugavert að vitna í slíkar ræður; það vita þingmenn sjálfir af eigin reynd. Hinsvegar man ég það, að ég fór allhörðum orðum um þessa menn. En margur mundi mæla, að það hafi ekki verið að ósekju, því á meðan ég talaði hélt ég á nýútkomnu blaði templara, Sókn, þar sem voru gífuryrði og meiðyrði um alla þá þm., sem fluttu till. um afnám bannsins þá í þinginu. Og ef það er ósæmandi að nota hörð orð um þá menn, sem notuðu þetta eitt til að svívirða flutningsmenn tillögunnar, þá veit ég ekki, hvað þarf til þess að verðskulda ill orð.

Í sambandi við útvarpstumr. vil ég geta þess, að stórtemplar notaði tækifærið, sem síðasti ræðumaður á undan Einari Kvaran, til þess að svívirða mig persónulega, og vissi hann, að ég gat ekki borið þar hönd fyrir höfuð mér. Ég kom að vísu boðum til Einars, þar sem ég bað hann að skila til þjóðarinnar, að þessi ummæli stórtemplars væru ranglega höfð eftir mér. En svo kom annar templari, alþekktur froðusnakkur og bjálfi, Felix nokkur Guðmundsson, og hóf máls á enn verri illmælum um mig, af því að hann vissi, að enginn tók til máls á eftir honum, enda hefði hann annars brostið kjark til þess. — Hv. þm. Seyðf. vænir mig um að vilja ekki styðja bindindisstarfsemina í landinu. Hann heldur því fram, að ekki sé að marka orð í bindindisátt frá mönnum, sem segja, að vínið sé ljúffengur drykkur. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, ef hann yrði regluboði — og það held ég liggi vel fyrir honum — að honum þýðir ekki að segja almenningi, að vínið sé ekki gott á bragðið og áhrifin þægileg. Hann á að viðurkenna, að það geti verið ljúffengt og augnabliksáhrifin notaleg. En svo á hann að segja það, sem er mergur málsins, að þó að svo sé, þá sé vínið samt oft til mikillar bölvunar og nær undantekningarlaust rót alls ills hverjum æskumanni. Hann á að játa, að sumir kunni með vin að fara, og að „hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta“. En hann á samtímis að benda á, að mörgum breytir vínið í vitfirringa, og minna á hvílíkri ómælanlegri ógæfu vínið oft hefir valdið.