27.11.1933
Neðri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (1956)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Ég skal fylgja dæmi hv. frsm. meiri hl. og vera stuttorður. Ég og einn meðn.m. minn, hv. þm. Dal., höfum ekki getað orðið meiri hl. n. samferða í þessu máli. Í fyrsta lagi um húsakaupin. Við höfum ekki séð ástæðu til að fara að setja fast verð á húseignina. Við teljum okkur skorta kunnleika til þess, að við gætum ákveðið fast verð, og þykir okkur rétt að fara með þetta eins og þegar vafi leikur á um verðmæti eigna, að kvaddir yrðu til óvilhallir menn, er dæmdu. Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að eignin væri metin að fasteignamati á 50 þús. kr. En hann gat þess ekki, að í þessari upphæð mun vera falin lóð, sem Alþingi hefir viðurkenndan rétt á. Eftir því, sem skrifstofustjóri Alþingis hefir tjáð mér, hefir Alþingi eða ríkið rétt á nálega 2/3 templaralóðarinnar samkv. dómi hæstaréttar. Þegar því gert er ráð fyrir söluverði 50% yfir fasteignamati eða 75 þús. kr., þá er stefnt að því, að ríkið kaupi lóð, sem það á sjálft og reglan á aðeins ráð á að einum þriðja. Við töldum því rétt, að farin yrði sú leið, sem ég hefi bent á hér í upphafi máls míns.

Hitt atriðið er komið undir vilja alþingis, hvað það vill veita mikinn styrk til byggingarinnar. Ef Alþingi ákveður að borga meira verð fyrir eign en hún yrði metin eða ástæða er til, væri þar um dulbúinn byggingarstyrk að ræða. Við minnihlutamennirnir í fjvn. lítum svo á, að það atriði eigi og ekki að koma til greina fyrr en á næsta fjárlagaþingi, enda fáum við ekki séð, að neitt kalli að um þetta, auk þess sem hér er um svo mikla fjárhæð að ræða, hvort sem till. verður samþ. óbreytt eða með breyt. meiri hl., að slík ákvörðun á að bíða reglulegs fjárlagaþings. Þá er og ekki hægt að binda hendur síðari þinga í þessu efni með þál. einni saman. Síðari þing mega vel líta á slíka samþykkt sem ómerka athöfn. Það getur því ekki verið kappsmál neinum að koma þessu máli fram í þessum búningi, þar sem þeir þm., sem síðar yrðu kosnir, mundu engan veginn þurfa að telja sig bundna af slíkum lauslegum ákvörðunum með þál. Það liggur ekkert fyrir í málinu, sem sýni, að því þurfi að hraða, og ég tel víst, að góðtemplarareglan megi eins vænta þess að fá styrk hjá komandi reglulegu Alþingi til starfsemi sinnar eins og hver annar góður og nytsamlegur félagsskapur, sem Alþingi hefir talið rétt að styrkja. Við í minni hl. fjvn. munum því greiða atkv. á móti því, að málið verði afgr. á þessa lund, en ég vil taka það fram, að við gerum það ekki af fjandskap til reglunnar, heldur af því, að við álítum, að hitt, sem við stingum upp á, sé réttari og eðlilegri leið.