27.11.1933
Neðri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (1957)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hæstv. forseti d. hefir lesið hér upp tilkynningu frá Stórstúku Íslands um það, að reglan skori á þingið að gera engar breyt. á áfengislöggjöfinni nú, og verð ég að taka það svo, að reglan ætlist til þess jafnframt, að engin ákvörðun verði tekin um hús- og styrkmál reglunnar á þessu þingi. (Nokkrir þm.: Heyr).

Ég vil leggja áherzlu á það í þessu máli, að það er ekki hægt á þessu stutta aukaþingi að leggja þungar og nýjar kvaðir á ríkissjóðinn, án þess jafnframt að sjá fyrir nýjum og auknum tekjustofnum. Eins og stendur er ekki einu sinni séð fyrir, að tekjurnar hrökkvi fyrir þeim kvöðum, sem þegar hafa verið lagðar á ríkissjóð. Ég mun hinsvegar styðja það á næsta þingi, að lóð og hús templara, sem um er að ræða, verði keypt við sannvirði, og auk þess veittur sérstakur styrkur til starfsemi reglunnar, ef áfengislöggjöfinni verður breytt í samræmi við atkvgr. fyrsta vetrardag. Ég teldi þá sjálfsagt, að reglunni væri synd sérstök tilhliðrunarsemi og nærgætni, svo að hún gæti aukið starfsemi sína af nýjum þrótti, en ég vil þó jafnframt taka það fram, að aukið starf reglunnar og von um árangur er ekki eingöngu komið undir húsbyggingunni hér í Reykjavík, heldur engu síður undir ýmiskonar starfsemi reglunnar úti um landið.

Ég vildi leggja áherzlu á þetta, að ekki lagðar neinar nýjar kvaðir á á þessu þingi, án þess að um leið væri séð fyrir auknum tekjum til að mæta þeim. Er þetta það, sem hver fjmrh. verður að leggja áherzlu á. Fram að síðasta þingi stóð svo á, að ekki var hægt að afgr. fjármálin nema með mestu harmkvælum, en eftir að stjskr. hafði verið samþ., rættist úr þessu, og jafnhliða þarf þingið að taka upp nýja stefnu, — þá stefnu, að leggja ekki nýjar kvaðir á án þess að sjá fyrir auknum tekjum um leið. Það er ekki nóg að hafa framfaraáhuga og vilja, þótt gott sé; áhuganum þarf líka að fylgja vilji til að bera auknar byrðar og skatta. Hver framfaramaður verður að leggja þetta á sig.

Fyrir löngu var talað um, að þetta þing ætti ekki að vera fjárveitingaþing. Um það virtist vera samkomulag allra flokka. Mér þykir því sem hv. fjvn. hafi verið fullörlát í afgreiðslu höfuðtill. sinnar að þessu sinni. Ég legg áherzlu á það sem fjmrh., að ekki verði farið að samþ. neitt, sem hefir aukin útgjöld í för með sér, nema um leið sé séð fyrir auknum tekjum á móti. Það er eðlilegt, að þetta mál verði borið fram á næsta þingi, ef áfengislöggjöfinni verður breytt í samræmi við atkvgr. fyrsta vetrardag, og þá skal ég ekki standa á móti því, að umrædd lóð og hús verði keypt fyrir sannvirði, en ef svo á að gera, á till. líka að vera orðuð eins og minni hl. fjvn. leggur til.