27.11.1933
Neðri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (1958)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. meiri hl. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég þarf að svara hæstv. forsrh. og hv. frsm. minni hl. nokkrum orðum.

Hv. frsm. minni hl. lagði áherzlu á það, að út um þessi kaup ætti að gera eins og venja er til um slík kaup. Vil ég benda hv. frsm. minni hl. á það, að það stendur ekki svo á um þessa húseign eins og venja er til. Er það almennt viðurkennt, og sérstaklega af Alþingi, sem gert hefir sérstaka samþykkt með tilliti til þess, að það stæði sérstaklega á með þessa eign.

Að því er kaupverðið snertir, erum við í meiri hl. fjvn. par algerlega á réttum grundvelli. Svo sem þm. er kunnugt, er söluverð eigna normalt 50% yfir fasteignamatsverði, og fasteignamatsverð lóðarinnar er rúm 50 þús. kr., svo að það kemur að þessu leyti heim við það söluverð, sem við gerum till. um, 75 þús. kr. Hv. frsm. minni hl. gat þess raunar í ræðu sinni, að fasteignamatsverðið mundi ekki eingöngu miðað við það, sem templarar eiga í þessari eign, en ég get fullvissað hv. frsm. minni hl. um það, að svo mun þó einmitt vera, að frádreginni þeirri kvöð, sem viðurkennt er, að á eigninni hvílir.

Hv. frsm. minni hl. taldi það óeðlilegt að taka ákvörðun um þetta nú þar sem þing það, er nú sæti, væri ekki fjárlagaþing. Út af þessu vil ég minna á það, að þessi ákvörðun var einmitt tekin af síðasta þingi, en ég sem einn af þáv. forsetum Alþingis taldi þó rétt að bera málið aftur undir þingið. Þessi mótbára hefir því ekki við neitt að styðjast, þar sem ákvörðunin einmitt hefir verið tekin af fjárlagaþingi, sem síðasta Alþingi vitanlega var.

Þá fann hv. frsm. minni hl. að því, að þetta væri ekki nógu góður grundvöllur um málið, af því að síðari þing væru ekki bundin af þál. eins og þessari. Út af þessu vil ég aðeins benda á það, að ef till. verður samþ., leiðir það eðlilega af samþ. hennar, að stj. gerir samninga við regluna um málið á þessum grundvelli, sem till. gerir ráð fyrir, og síðari þing eru auðvitað bundin af samningum, sem stj. þannig hefir gert.

Hæstv. fjmrh. hefir lagt á móti málinu með þeim röksemdum, að þingið mætti ekki samþ. nein ný útgjöld án þess að sjá um leið fyrir nýjum tekjum á móti þeim. Ég er fullkomlega sammála hæstv. fjmrh. um þetta. En það er vitað, að auknar tekjur muni koma á móti. Það er vitað, að bráðlega verður gerð sú breyt. á áfengislöggjöfinni, að leyfður verður innflutningur sterkra drykkja, og hefir það í för með sér margfalt auknar tekjur á móts við þetta fyrir ríkissjóð. Rök hæstv. fjmrh. eiga því hér ekki við. Hinsvegar gæti fjvn. tekið það til athugunar, hvort ekki sé rétt að geyma þessar greiðslur þangað til tilsvarandi tekjur hafa komið á móti af breyttri áfengislöggjöf. En ég endurtek það, að þótt mótbára hæstv. fjmrh. eigi við almennt, á hún ekki við í þessu tilfelli, og áminning hæstv. ráðh. til fjvn. á ekki við að þessu leyti af sömu ástæðum.

Það er náttúrlega gott að gefa fyrirheit um það, hvað maður ætli að gera á næsta þingi. En það er nú svo, að enginn okkar veit, hvort hann situr næsta þing. Er það ekki einungis komið undir lífi okkar sjálfra og vilja, hvort svo verður, heldur fyrst og fremst undir kjósendunum, hvort þeir vilja kjósa okkur aftur. Ég held því, að það sé bezt fyrir alla að vera ekki að lofa neinu upp í ermina á sér að því er þetta snertir.