28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (1964)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

1964Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. þm. Reykv. tekur skýringu mína gilda að mestu leyti. Hann vill þó tvískipta starfsemi reglunnar í bindindisstarfsemi og löggjafarstarfsemi og gera á þessu tvennu eðlismun. En svo þarf ekki að vera. Reglan vinnur að bindindisstarfsemi og getur bætt skilyrðin til þess með því að styðja að heppilegri löggjöf. Þegar nú vænta má nýrrar áfengislöggjafar, þá er ekki nema eðlilegt, að stúkurnar láti sig það mál miklu skipta. Og opinber styrkur til þeirra mun vitanlega ekki takmarkast við afskipti þeirra af þeirri löggjöf.

Ég get þá ekki séð, að af tortryggni hv. 1. þm. Reykv. í minn garð standi annað eftir en það, að ég óska eftir því, að ríkinu sé séð fyrir nýjum tekjum, ef stúkuna á að styrkja svo ríflega næsta ár, sem till. meiri hl. n. gerir ráð fyrir. Móti slíku verð ég að vera, nema jafnframt sé séð fyrir því fé, sem skipað er að greiða af hendi.