28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (1965)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Hv. frsm. meiri hl. dró í ræðu sinni nokkuð í efa ýms ummæli mín, m. a. það, sem ég sagði um till. þá, er samþ. var á síðasta þingi, um að fela forsetum að semja um þetta mál. Nú var hv. frsm. einmitt forseti og hafði því heimild til að semja um málið. Að hann gerði það ekki, hygg ég, að hafi stafað af því, að hann hafi verið vandari en svo að virðingu sinni, að hann vildi ganga að kröfu templara eins og hún kom fram í till.

Þá sagði hv. frsm., að fasteignamatsverð þess hluta lóðarinnar, sem templarar eiga, sé 24700 kr. Ég staðhæfi, að þetta er ekki rétt. Ég hefi aflað mér upplýsinga, sem ég tel ábyggilegar, um það, að góðtemplarareglan á ekki nema nokkurn hluta þeirrar lóðar, sem metin er á þessa upphæð, eitthvað minna en helming. Að svo se, verður strax ljóst af því, að stærð lóðarinnar er talin hin sama í núgildandi fasteignamati og gert var í matinu frá 1916–1917, eða á þeim árum, er enginn ágreiningur var um lóðina og templarar töldu hana alla sína eign. Auk þess hefi ég aflað mér upplýsinga frá þeim mönnum, er störfuðu að fasteignamatinu hér, og staðfesta þeir, að sá hluti lóðarinnar, sem ríkissjóður á, sé þarna með talinn. Um það þarf því ekki frekar að deila. Er þar með kippt fótum undan þeim útreikningi hv. meiri hl., sem átti að sanna, að hér væri um hæfilegt verð að ræða, sem væri matsverð að viðbættum 50%. — Eins og af framansögðu er auðsætt, þá er fasteignamatsverð þess hluta lóðarinnar, sem góðtemplarar eiga, ekki yfir 8–10 þús. kr. Fer þá að skakka allverulegu um útreikninga hv. meiri hl. n., og er bersýnilegt, að 75 þús. kr. kaupverð á lóð og húsi er algerlega út í loftið. Hið eina sanngjarna er, að þessar eignir templara séu keyptar eftir mati dómkvaddra, óvilhallra manna.

Þá vildi hv. frsm. meiri hl. halda því fram, að hvað styrkinn snertir, þá mætti með till. til þál. binda hendur síðari þinga. En ég tel slíkt fjarri öllum sanni. Ég játa að vísu, að stj. gæti gert það með samningi. En meiri hl. n. er alveg mótfallinn því, að slíkir samningar séu gerðir að svo stöddu. Það liggja engar sjáanlegar knýjandi ástæður fyrir því, að þetta mál sé afgr. nú. Það getur að skaðlausu beðið fjárlagaþings.

Það hefir verið svo, að fjvn. er von að leggja á móti flestum aukafjárveitingum, og n. hefir verið umhugað að halda fjárgreiðslum innan þess ramma, er fjárl. setja. Er því einkennilegt, að meiri hl. hennar skuli nú bregðast þeirri venju sinni og geta ekki fallizt á að láta þetta bíða reglulegs Alþ. Ég get ekki séð, að styrkveiting til reglunnar geti ekki beðið þangað til. Alþ. hefir undanfarið ekki verið neitt knappt í styrkveitingum til slíkrar starfsemi, svo sem reglunnar, hjálpræðishersins o. fl. — Á næsta þingi verða tekjur ríkisins athugaðar og útgjöldin þá sniðin eftir því.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um þetta. Á því er engin þörf. Ég vil enda mál mitt á því að taka það fram, að góðtemplarar eigi að mínu viti hvorki skyldukröfu né sanngirniskröfu um, að þessi lóð og hús sé af þeim keypt að sinni fyrir það verð, sem meiri hl. n. leggur til.