28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (1966)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég vildi segja nokkur orð um till. hv. mjnni hl. í jvn. í þessu máli. En fyrst vil ég þó láta ánægju mína í ljós yfir því, að efnislega séð hefir till. þessi ekki mætt mótspyrnu. Hv. frsm. minni hl. hefir sagt það í tveim ræðum, er hann hefir haldið, að góðtemplarareglan þyrfti ekki að óttast um, að hún yrði ekki styrkt til húsbyggingar, ef hún yrði að hverfa af þessari umræddu lóð. Má því reglan vænta þess, að hún verði vel og drengilega studd til að eignast nýja lóð og nýtt hús. Er slíkt fyrirheit gott, enda þótt till. verði ekki afgr. nú, þar sem ekki er um fjárlagaþing að ræða. —

En þrátt fyrir þetta leggur þó hv. minni hl. n. til, að þetta mál sé leyst strax, og að því er mér skilst, þá er sú till. gerð af umhyggju fyrir góðtemplurum og í þágu þeirra. En það er alger misskilningur, að svo sé, því að ef eign góðtemplara er keypt eftir óvilhallra manna mati, þá er eingöngu um hagsmunamál ríkisins að ræða. Eftir því, sem hv. frsm. minni hl. farast orð, þá er fasteignamatsverð þess hluta lóðarinnar, sem góðtemplarar eiga, ekki nema 8–10 þús. kr. Og að kaupa þessa lóð því verði, þó með einhverju álagi sé, er hreint hagsmunamál fyrir ríkið. þáltill. var flutt í því skyni, að góðtemplarareglunni væri gert fært að koma sér upp miðstöð hér í Reykjavík til styrktar starfsemi sinni í þágu bindindis, en þeirri starfsemi verður maður að vona, að hún haldi uppi framvegis. Nú hefir ekki fengizt að koma upp nauðsynlegu húsi á þessari eign, sökum mótstöðu forseta Alþ. Er því till. flutt með það fyrir augum, að tími sé til þess kominn, að reglunni sé gert fært að bæta aðstöðu sína, svo sem henni er nauðsynlegt. Till. hv. minni hl. bætir vitanlega ekkert úr þessu. En vitanlega ber að líta á góð fyrirheit og góðvild hv. minni hl. Og ég fyrir mitt leyti vildi alls ekki knýja þessa till. okkar fram á þessu augnabliki, ef hv. minni hl. gæti gefið okkur nokkra tryggingu fyrir því, að þau heit, sem hann gefur, verði efnd.

Ég get vel skilið afstöðu hæstv. fjmrh., sem lagði áherzlu á, að ekki væri veitt fé til þessa í fjárl. En ég vil benda á, að í till. er ekkert um það sagt, hvenær þessi kaup skuli fara fram. Stjórnin hefir því í hendi sinni að framkvæma ekki till. fyrr en fé er fyrir hendi; till. gefur þá fyrirheit um, að hún skuli efnd á sínum tíma. Og það er vitanlega ekkert atriði, hvort þetta er gert strax eða frestað um stund. Um það er hægt að semja, að útborgun fari ekki fram fyrr en heppilegt þykir fyrir ríkissjóð.

Ég varð dálítið hissa, þegar hæstv. fjmrh. fór að bera deilur fyrri þinga um 2000 kr. meiri eða minni styrk til góðtemplarareglunnar saman við þessa till. Þessu má vitanlega ekki blanda saman. Þá var aðeins um ársstyrk að ræða, er vinna skyldi fyrir að bindindisstarfsemi í landinu. Um það starf og hvernig þeim styrk hefir verið varið hafa árlega verið gefnar fullnægjandi skýrslur. En vitanlega var engin heimild til þess að taka af því fé og leggja fyrir til húsbyggingar. Góðtemplarar eiga því enga digra sjóði til nauðsynlegra bygginga. Og því má heldur ekki gleyma, að móti þeim styrk, sem góðtemplurum hefir verið veittur af Alþ., hafa þeir lagt fram margfalt meira sjálfir. Mér er óhætt að fullyrða, að það fé, sem templarar sjálfir hafa lagt af mörkum til bindindisstarfseminnar í þessi 50 ár, skiptir hundruðum þúsunda, svo að það er næsta ómaklega mælt, þegar sagt er, að þeir hafi eingöngu farið með fé ríkissjóðs. Og ég verð að segja það, að mér finnst það engin goðgá, þótt templarar fari nú eftir 50 ára starf fram á þennan húsbyggingarstyrk, af því að mér er kunnugt um, hvert starf þeirra hefir verið og hve mikils virði. Ég þori því vel að mæla með því, að fé þetta verði veitt, og ég vil leyfa mér að fullyrða, að þeirri upphæð yrði betur varið en mörgu öðru fé, sem Alþingi hefir látið af mörkum úr ríkissjóði.

Ég mun fylgja þeirri brtt. meiri hl. fjvn., að upphæðin sé færð niður í 150 þús. kr. og skipt í húsbyggingarstyrk og starfsstyrk, enda þótt hún nái skemmra en þáltill., þar sem ég tel hana vænlegri til sigurs.

Það er óþarft að ræða margt um sambandið milli þessa máls og afnáms áfengislaganna. Hitt er mál, sem ekki mun verða um deilt, að æskilegt sé fyrir Alþ. og alla þá, sem siðmenningu unna, að bindindisstarfsemin í landinu sé tekin upp með auknum krafti. Og að því einu miðar sú þáltill., sem hérna liggur fyrir.