30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (1979)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ólafur Thors:

Það liggur hér fyrir brtt. frá þeim hv. þm. V.-Sk., 1. þm. Reykv. og þm. Snæf., sem ég bjóst við, að einhver þessara ágætu ræðumanna myndi tala fyrir. (GSv: Það er búið). Nei, en það er búið að tala á móti henni. Það gerði hv. þm. V.-Sk. af mikilli mælsku og rökfimi. Ég hefi oft dáðst að mælsku þessa hv. þm., en ég verð að viðurkenna, að honum hefir sjaldan tekizt betur upp en einmitt þegar hann var að tala á móti því, er þeir þremenningarnir nú flytja till. um. Ég hefir áður lýst afstöðu minni til þessa máls, og hún er sem kunnugt er sú, að á meðan templarar hafa sem forstöðumenn fyrir sínum málum slíka menn, sem þeir hafa nú, menn, sem alls ekki eru hugsjón þeirra samboðnir, þá vil ég ekki veita þeim hin umbeðnu fríðindi. Annars er ég ekki reiðubúinn að segja um það nú, hvort sá styrkur, sem templurum verður veittur á sínum tíma til aukinnar bindindisstarfsemi í landinu, skuli veittur í þessu formi eða á annan hátt. Það eru a. m. k. sterkar raddir, sem halda því fram, að frekar beri að veita hann í öðru formi en hér er farið fram á.

Það er alkunna, að núv. forvígismenn templara hafa ráðizt á forsrh. og fleiri þm. með miklum svívirðingum, bæði í málgagni sínu og í gegnum útvarpið, og ég hefi enga vissu fyrir því, að þeir selji ekki þessa umræddu lóð, ef þeim verður afhent hún, noti andvirðið til þess að ferðast út um landið og halda áfram sinni fyrri iðju, að svívirða þá hina sömu menn, sem veita þeim þessi fríðindi.