30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (1981)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Ég hafði hugsað mér að blanda mér ekki mikið í þær umr., sem farið hafa fram um þetta mál nú, en þar sem komið hefir fram brtt. við það, vildi ég gera grein fyrir afstöðu minni til hennar, og þá málsins í heild. Eftir brtt. verður ekki annað séð en að góðtemplurum sé heimilt að fara með lóð þessa eftir sínum geðþótta; þeir geta selt hana eða leigt, eða byggt á henni. Verði byggt á lóðinni, myndi koma þar múrveggur sunnan við alþingishúsgarðinn, sem myndi byrgja að mestu fyrir, að sól næði að skína í garðinn. Hann yrði því í forsælu, og gæti þá orðið hætta á því, að það mikla verk, sem í garð þennan hefir verið lagt, allt frá tíð Tryggva sál. Gunnarssonar, yrði að engu gert, og garðurinn þá ekki heldur lengur sú prýði, sem hann er nú.

Því hefir verið hreyft, að flytja bæri Alþingi úr þessum sölum og því væri ekki ástæða til að halda í þessa lóð. Þetta eru að sjálfsögðu allt bollaleggingar, sem ekki hafa við neitt sérstakt að styðjast. Alþingi hefir þvert á móti ekki alls fyrir löngu gert ráðstafanir til þess að bæta við eign sína hér, með því að kaupa lóð Halldórs Friðrikssonar, sem eingöngu mun gert með það fyrir augum, að það þurfi að færa út kvíarnar, og ennfremur til þess að koma í veg fyrir það, að byggt yrði fast við alþingishúsgarðinn að sunnan. Þetta hefir mér skilizt vera stefna Alþingis í þessu máli hingað til. En nú bregður svo undarlega við, að nú vilja hv. þdm. endilega fara að afhenda eða gefa nokkurn hluta af lóð alþingishússins.

Það mun hafa verið um 1900 sem farið var að kvabba til Alþingis um það, að ríkið gæfi lóðir einum og öðrum. Þetta kvabb hefir aldrei þagnað síðan, og dálítið hefir verið að því gert að farga lóðum ríkisins; t. d. hefir verið fargað nokkru af lóðunum kringum Arnarhól. Ég er að vísu ekki gagnkunnugur þar, en ég hygg, að það sé nú farið að sneyðast þar um þær lóðir, sem ríkið á og komið getur til mála að byggja á.

Næsta sporið í lóðamálum ríkisins er svo það, að ríkið fer að kaupa lóðir. Það var hér fyrir skemmstu, að ríkið keypti lóðir hér í grennd fyrir stórfé. Ég get nú ekki að því gert, að mér finnst það næsta hlægilegt brask, sem ríkissjóður hefir hér verið látinn reka. Ef það hefði verið prívatmaður, sem hefði hagað sér eitthvað líkt þessu, að henda frá sér ágætum lóðum fyrir lítið eða ekki neitt, en kaupa svo aðrar dýrum dómum, þá hefði sá maður verið talinn fífl eða hreinasti fjármalaglópur, og ég sé ekki betur en að till. sú, sem hér liggur fyrir, sé beint áframhald á þeim leik, sem leikinn hefir verið á Alhingi í þessu efni. Mín afstaða er því sú, að ég er og hefi alltaf verið á móti öllum þessum lóðagjöfum. Ég hefi álitið, að ríkið ætti að halda um sitt í þessu efni. Það er enginn kominn til þess að segja, hvaða breytingar kunna að verða hér á næstu 10 til 20 árum. Það verður a. m. k. að skoða það sem einbera heimsku að gefa lóðir ríkisins í miðbænum, þó ekki sé sjáanlegt, að ríkið þurfi að láta byggja á þeim í næstu framtíð. Það er öllum vitanlegt, að þessar lóðir eru verðmætar eignir, sem ekki falla í verði, heldur hækka. Ég get ekki neitað því að afstaða Alþingis í þessu máli er hreint og beint kátbrosleg. Í 10 ár hefir staðið látlaust þref og málaferli milli Alþingis og góðtemplarareglunnar um það, hver eigi þessa lóð. Alþingi hefir gert sérstakar ráðstafanir til að hindra það, að templarar byggðu á þessari lóð. Það eru forráðamenn allra flokka, sem staðið hafa að þessum ráðstöfunum. Alþingisforsetar úr öllum þingflokkum, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., munu hafa staðið sem einn maður gegn góðtemplarareglunni í þessu máli og ekki viljað láta af hendi eina alin af þessari lóð Alþingis. Og forsvarsmenn Alþingis hafa ekki einasta verið á verði gangvart reglunni í þessu efni, heldur meira að segja þeim ríkisstofnunum, sem komið hefir til orða, að fengju að byggja á þessari lóð. Ég vil því til staðfestingar, með leyfi hæstv. forseta, lesa svar allra forseta Alþingis 1929 í tilefni af þeirri till., að landssímastöðin hér í Rvík yrði reist á lóðinni:

„Árið 1929, þriðjudaginn 21. maí, áttu forsetar og varaforsetar Alþingis fund með sér í alþingishúsinu. Hafði forseti sameinaðs þings boðað til fundarins.

Á fundinum voru: Magnús Torfason, forseti sameinaðs þings. Guðmundur Ólafsson, forsetj efri deildar. Benedikt Sveinsson, forseti neðri deildar. Ásgeir Ásgeirsson, varaforseti sameinaðs þings. Jón Baldvinsson, fyrri varaforseti efri deildar. Ingvar Pálmason, annar varaforseti efri deildar. Þorleifur Jónsson, fyrri varaforseti neðri deildar. Annar varaforseti neðri deildar, Jörundur Brynjólfsson, var farinn úr bænum.

Út af tilmælum, er fram hafa komið um, að forsetar leyfðu, að fyrirhuguð landssímastöð og bæjarsima yrði reist á templaralóðinni sunnan við alþingishúsið, voru allir fundarmenn einhuga um að lýsa yfir, að ekki kæmi til mála að leyfa að reisa stórhýsi á þeirri lóð eða ráðstafa henni til annara, meðan ekkert væri ákveðið um flutning þingsins á annan stað en nú stendur það.

Fundi slitið.

Magnús Torfason. Guðmundur Ólafsson. Benedikt Sveinsson. Ásgeir Ásgeirsson. Þorleifur Jónsson. Ingvar Pálmason. Jón Baldvinsson.“

Það er ekki einungis gegn reglunni, sem forsetar þingsins hafa tekið þessa afstöðu, heldur einnig gagnvart ríkisstofnun. En nú er komið annað hljóð í strokkinn. Eftir að Alþingi er búið að fá sér tildæmdan eignarrétt á lóðinni, ekki einu sinni með undirréttardómi, heldur hæstaréttardómi, þá vilja þessir hv. flm. brtt. rjúka til og gefa reglunni lóðina. Jú, gerið þið svo vel, ykkur er velkomið að eiga lóðina, ef þið viljið.