06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (1996)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Jón Þorláksson:

Þessi till. á rót sína að rekja til þess, að bæjarstj. gerði það í góðu skyni við Alþingi, þegar hún lét útmæla lóð góðtemplara, að hún lagði þá kvöð á hana, að hana skyldi láta af hendi, hvenær sem Alþingi krefðist, en jafnframt skyldi þá sjá góðtemplurum fyrir annari lóð. Þessi kvöð náði til hinnar upphaflegu lóðar, en síðan hefir verið bætt við hana, svo ég ætla, að nú hvíli kvöðin á rúmum helmingi hennar.

Bæjarstj. gerði þetta upphaflega í góðri meiningu, en nú sýnist mér þetta hafi verið bjarnargreiði, ef ríkissjóður á nú að fara að svara út fyrir sína eigin lóð 150 pus. kronum, og getur þar að auki ekki notað sér hana, þar sem kringumstæður eru svo breyttar, að þó að ástæða hafi virzt á sínum tíma til þess að halda í réttindin til þessarar lóðar vegna stækkunar á þinghusinu, þá held ég nú, að engum blandist hugur um, að lóðin hefir enga þýðingu, jafnvel þó menn vildu stækka húsið. Þó að þetta hús yrði stækkað, þá yrði ekki byggt við suðurhlið þess, heldur meðfram Kirkjustræti. Þetta hefir stjórnin séð og fest því kaup á lóðinni við Kirkjustræti hér við hliðina á þessu húsi. Ég sé því ekki, að ástæða sé til þess að vera að halda í þessa kvöð, sem bæjarstj. gaf á sínum tíma, allra sízt, ef hún á að verða ríkissjóði svo dýrkeypt, vegna þess að nú er búið að sjá fyrir hentugra urræði, ef á að stækka húsið.

Hið eina, sem hægt er að færa fram með því, að Alþingi keypti lóðina, væri það, að með því væri hægt að viðhalda útsýni frá suðurgluggum hússins. þetta er að vissu leyti rétt, og þó mjög hæpin ástæða. Ég vil í því sambandi minna á skipulagsuppdrátt Rvíkur, sem að vísu er ekki enn samþykktur, en þó farið eftir honum í öllum aðalatriðum. Þar er gert ráð fyrir, að vikið við Vonarstræti milli samkomuhúsanna verði fyllt upp. Verða þá að sjálfsögðu byggð hús á uppfyllingunni, sem taka af útsýni úr suðurgluggum Alþingis, enda þótt ekki verði byggt á templaralóðinni. Þessi ástæða um útsýnið hefir þess vegna ekki lengur við rök að styðjast. Fyrir Alþingi er það langheppilegasta leiðin að gefa þessa kvöð eftir. Má þá eiga það undir byggingarvaldinu, að þarna verði byggt hús, sem sé í samræmi við umhverfið og sómi sér ekki illa við hliðina á dómkirkjunni og alþingishúsinu.

Ég ætla, að þessu athuguðu, að bera fram till. til rökst. dagskrár, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Með því að þingdeildin telur ekki, að kvöð sú alþingishúsinu til handa, sem bæjarstjórn Reykjavíkur á sínum tíma lagði á nokkurn hluta templaralóðarinnar, hafi lengur verulega þýðingu fyrir alþingishúsið, heimilar deildin forseta sínum fyrir sitt leyti að gefa eigendum templarahússins þessa kvöð eftir, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.

Það hefir hingað til verið litið svo á, að forsetar Alþingis hefðu yfirráð yfir kvöðinni.