02.11.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Þorgríms Þórðarsonar

Aldursforseti (ÞorlJ):

Frá því er síðasta þingi sleit hefir látizt einn fyrrverandi alþingismaður, Þorgrímur Þórðarson læknir í Keflavík, sem ég vil minnast nokkrum orðum.

Hann fæddist í Reykjavík 17. des. 1859, sonur Þórðar Torfasonar útvegsbónda þar og konu hans Ragnheiðar Jónsdóttur frá Korpúlfsstöðum, af Stephensensætt. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1880 og úr læknaskólanum 1884. Árið eftir var hann settur aukalæknir á Akranesi, en 1886 fékk hann veitingu fyrir héraðslæknisembættinu í Austur-Skaftafellssýslu og reisti bú á Borgum í Nesjum. Því embætti gegndi hann 18 ár, eða til 1904, er honum var veitt Keflavíkurhérað. Þar var hann héraðslæknir til 1929, en fékk þá lausn frá embætti. Hann andaðist á landsspítalanum í Reykjavík 5. júlí þ. á.

Þorgrímur Þórðarson var um langt skeið mikils metinn læknir og stakur áhugamaður um verklegar framkvæmdir og almenningsheill og tók mikinn þátt í héraðs- og landsmálum. Hann bjó við mikla rausn í A.-Skaftafellssýslu, átti sæti í hreppsnefnd, sýslunefnd og amtsráði, og þingmaður Austur-Skaftfellinga var hann 1902–1907. Hann gekkst fyrir því, að barnakennslu var komið á í Nesjahreppi, tók einna fyrstur manna að bólusetja gegn bráðapest og var meðal hinna helztu forgöngumanna um öll framfaramál þar eystra. Í Keflavík lét hann atvinnu- og útvegsmál mjög til sín taka, stofnaði þar myndarlegan sparisjóð, sem kemur útgerðinni þar að miklu gagni, og stýrði honum til dauðadags.

Með Þorgrími Þórðarsyni er hniginn í valinn einn af hinum fjölhæfu dugnaðarmönnum í læknastétt, sem voru eigi aðeins læknar, heldur og athafnamiklir héraðshöfðingjar.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa manns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum.]