06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (2001)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Jón Þorláksson:

Ég vil aðeins geta þess, að tilætlunin með dagskránni var sú, að með samþykkt hennar fái till. í heild afgreiðslu á þessu þingi. Hitt er ekki sagt, hvort í fárlagaþing ætti að veita styrk til reglunnar eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar, að síðari liður till. eigi enn síður heima en hinn hér á þessu þingi. Það kemur þá undir fjárl. þingsins, á alveg eðlilegan hátt, hvern styrk skal veita til þessa.

Þetta er þá meiningin með minni dagskrártill., og ef samkomulag fæst um hana, þá er stigið fyrsta sporið til að leysa þetta mál á alveg eðlilegan hátt. Ríkissjóður er ekki í neinu lóðahraki. Hann á t. d. Arnarhvolstúnið, sem hann getur notað til sinna þarfa, hverrar sem er og hvenær sem er. Það er allt of stór og vel settur blettur til þeirrar notkunar einnar, að þar megi sjá eina myndastyttu. Auk þess á ríkið stóra lóðarspildu hér fyrir ofan lækinn, sem keypt hefir verið handa ríkinu eftir einhverju pukurssamkomulagi. Á þessari lóðaspildu, sem er stór, standa húskofar, sem stj. hefjr ráðstafað til aðhlynningar á sínum skjólstæðingum. Mér finnst þetta því nóg, þótt ríkissjóður kaupi ekki meira af slíku. Ég veit það að vísu, að alþingishúsið er þröngt nú. En af hverju er það? Af því að stofnun, sem ekkert á skylt við Alþingi, hefir fengið alla neðri hæð hússins til sinna afnota. En það er háskólinn, sem alls ekki á hér heima. Ef honum verður lagt til annað húsnæði, þá losnar hér húsrúm, svo að líklegt er, að rúmt verði um Alþ. hér a. m. k. í heila öld. En til viðbótar alþingishúsinu eins og það nú er á ríkið lóð hér við hliðina. Og þegar búið er að byggja fyrirhugaða götu frá Austurstræti í Vonarstræti, þá má byggja þarna hús, sem verður hornbygging við þá götu og Kirkjustræti. Er þar með séð fyrir öllum þörfum Alþ. að því er húspláss snertir fram í aldir.