06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2007)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera langorður. Ég leiði hjá mér að svara einstökum atriðum í ræðu hv. 2. þm. Rang., aðeins geri ég nokkrar aths. við það, sem hann sagði. Ég skal taka það fram í eitt skipti fyrir öll, að reglan biður ekki Alþingi og hefir aldrei beðið það um neitt gustuka- eða gjafafé. Sá styrkur, sem hún hefir árlega þegið út ríkissjóði, hefir verið veittur og notaður í ákveðnum tilgangi, sem sé til útbreiðslustarfsemi. Sú fjárbeiðni, sem hér liggur fyrir og ekki er beinlínis frá reglunni, á að vera til þess að bæta úr þeim aðstöðuhnekki, sem reglan líður við þetta mál, sem hér er um að ræða. Hitt er misskilningur, að hinn árlega styrk úr ríkissjóði hafi reglan getað notað til húsbygginga. Hún hefir á hverjum tíma varið hverjum eyri af því fé til útbreiðslustarfsemi. Allt það fé, sem hún hefir varið til húsbygginga víðsvegar á landinu, hefir hún lagt fram sjálf.

Þá vil ég minnast á þetta almenna viðhorf hv. þm. og hans skoðanabræðra gagnvart reglunni. Þessi hv. þm. segist vilja styrkja regluna í framtíðinni, ef hann sjái, að hún vinni að sínu markmiði í þeim anda, er hann telur heillavænlegan. En ég vil nú benda hv. þm. á það, að markmið reglunnar er gagnstætt markmiði hv. þm. Það vita allir, að markmið reglunnar er algert bann, og hún slær ekki af þeirri hugsjón. Ég skal kannast við, að það eru erfiðir tímar nú, en þeir eru líka erfiðir fyrir góð málefni, og ég vil vænta þess, að svo mikill hugur fylgi máli hjá bannandstæðingum, er þeir tala um áhuga sinn á bindindi, að þeir vilji verja til bindindisstarfsemi meginhlutanum af þeim auknu tekjum, sem þeir búast við, að ríkissjóður fái af áfenginu eftir að bannið er afnumið. (MJ: þegar peningarnir koma). Ég hefi ekki trú á því, að tekjur ríkissjóðs af víninu aukist við afnám bannsins, og ég vil vona, að svo verði ekki, og ég mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að svo verði ekki.