13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2010)

15. mál, Kreppulánasjóður

Flm. (Jón Pálmason):

Háttvirtu þingdeildarmenn! Ég geri ráð fyrir, að ykkur standi það ljóst fyrir augum, af hvaða orsökum löggjöfin um Kreppulánasjóð er sprottin, sem afgr. var á síðasta þingi. Þær orsakir munu vera vel kunnar. Svo að segja öll bændastéttin íslenzka er komin í hinar alvarlegustu skuldakröggur. Þetta stafar af því, að á síðustu árum hafa orðið meiri, alvarlegri og geigvænni verðsveiflur en bændur hafa áður þekkt. Við þetta bætist svo, að síðustu árin hefir í þessum efnum átt sér stað óhentug og skökk beiting á ríkisvaldinu. Þriðja orsökin í takmörkuðum skilningi er ógætni ýmissa þeirra einstaklinga, sem hlut eiga að máli, en almennt er það ekki. Það er því ekki að furða, þótt þetta öngþveiti hafi valdið því, að fjöldi manna er kominn í ýtrustu vandræði. Ég skal ekki fara að sinni nánar út í þessi atriði. En hitt veit ég, að á síðasta þingi stóð það mönnum ljóst fyrir augum, að gera þyrfti róttækar ráðstafanir gegn þessum vanda. Lögin um Kreppulánasjóð eru afleiðingin af þeim ráðagerðum og þeim undirbúningi, sem gerður var til hjálpar. Það munu vera skiptar skoðanir um það, hve vandaður frágangurinn er á þessari lagasmíð, en það finnst mér ekki undarlegt.

Það er kunnugt, að Alþingi það, er nú situr, er að miklum meiri hl. skipað þeim sömu mönnum, sem afgr. þessi lög í fyrra, og það er þess vegna ekki aðgengilegt að fara fram á breyt. nú til að koma þeim fram. Það er sem sé oft svo, að menn, sem nýbúnir eru að afljúka verki, líti yfir afrek sín og þyki þau harla góð. Þessir hv. þm. munu því an efa telja löggjöfina góða, og þykir það hinsvegar til of mikils ætlazt, að farið sé fram á breyt. við hana. En afstaða okkar flm. grundvallast á þeim hugsunarhætti, að það séu svik að þegja við því, sem við álítum rangt, án þess að taka tillit til, hvaða viðtökur við fáum. Þess vegna getur meira en vel verið, að þeir hv. þm., sem unnu að samþykkt þessara laga, líti svo á, að þessar till. séu eintóm hótfyndni frá okkar hálfu. Um þetta skal ég eigi fjölyrða meir, heldur snúa máli mínu að þeim breyt., sem felast í því frv. sem fyrir liggur. Þær felast aðallega í tveim atriðum og fjalla í fyrsta lagi um þær kröfur, sem gerðar eru til lánbeiðanda, og í öðru lagi um afstöðuna til stjórnar stofnunarinnar.

Það mun kunnugt, að fyrir ári síðan var hafin umfangsmikil starfsemi til þess að afla upplýsinga um eignir og skuldir bænda á landinu og allan hag þeirra yfirleitt. Svo fast var gengið fram í þeirri leit, að allar lánsstofnanir gáfu skýrslu um skuldir og ábyrgðir. Í öllum verzlunum var leitað, og framtali manna um skuldir einstaklinga söfnuðu oddvitar í hverri sveit. Í umr. um þessar ráðstafanir á síðasta þingi lét hv. þm. Str. svo um mælt, að þessi grg. mundi vera mjög svo tæmandi. Svo var samin spjaldskrá yfir allt saman, er á að sýna hag hvers manns, og skýrsla síðan prentuð í þingtíðindum um allt saman. Í þriðja lagi ætlast lögin svo til þess, að héraðsnefndir fari yfir lánbeiðnirnar, og er gert ráð fyrir því, að þær meti síðan eignir mannsins og skuldir. Þá er og heimtuð drengskaparyfirlýsing um, að rétt sé fram talið og engu sleppt. Það er auðvitað ekki nema eðlilegt, þar eð hér ræðir um lánveitingu gegn betri kjörum en áður hafa þekkzt. En þrátt fyrir þetta á að auglýsa nöfn umsækjenda þrisvar sinnum í Lögbirtingablaðinu og kalla þar eftir skuldum þeirra. Virðist það fyrst og fremst gert með það fyrir augum, að leita upplýsinga um það, hvort rétt og satt hafi verið sagt til um þessi efni, m. ö. o. það er verið að véfengja drengskaparyfirlýsingu lánbeiðanda. Í þessum efnum virðist vera svo langt gengið, að það er satt að segja engin furða, hve mikla óánægju þetta hefir vakið. Og það get ég sagt, að margir bændur, mér persónulega kunnugir, hafa latið í ljós við mig, að þeir hefðu orðið fyrir sárum vonbrigðum, þegar það fréttist, hvernig Alþingi hafði gengið frá þessum lögum. Það er náttúrlega svo, að ekki verður hjá því komizt, að áliti lögfræðinga, að auglýsa nöfn þeirra lánbeiðenda, sem ekki eiga fyrir skuldum, af því að gert er ráð fyrir að fella af skuldum þeirra. En þess er að gæta, að þeir eru ekki fleiri en 1118 í þessu tilfelli. Í brtt. okkar er farið fram á, að þessu sé komið í sanngjarnara horf, þannig að ekki séu þeir auglýstir, sem eiga fyrir skuldum eftir skattaframtali 1932 eða mati héraðsnefnda. Það liggur í augum uppi, að engin þörf er til þess, að þeir séu auglýstir, því að ekki er um það að ræða, eða a. m. k. eru mjög litlar líkur til þess, að þeir fái eftirgjöf á skuldunum. En eins og þessi ákvæði eru nú úr garði gerð, er eigi annað sýnna en að með þeim sé stofnaður nýr skiptaréttur fyrir bændastéttina íslenzku eingöngu. Með þessu hefir verið sett af stað býsna mikil skriffinnska, sem engum kemur að gagni, en skemmir heldur fyrir. Það er auðvitað ágætt, að þessi sjóður var stofnaður, en þar með er ekki sagt, að það hafi verið gert á hann hátt, að búast megi við, að menn séu ánægðir með skilyrðin. Margir segja sem svo: Ég er neyddur til þess að leita þessarar hjálpar og verð að sætta mig við þessa meðferð, í þeirri von, að mitt nafn drukkni í fjöldanum. Sælt er sameiginlegt skipbrot. — Það er ekki skemmtilegt, fyrir menn að vera settir á bekk með gjaldþrotamönnum fyrir þá sök eina, að þeir hafa ekki síður þörf á ódýru lánsfé en aðrir menn. Ég tel, að skilyrðin séu alls ekki réttlát, og það virðist alveg sjálfsagt, að þeir séu látnir sitja fyrir, sem lakasta aðstöða hafa. Og það er ekki heldur rétt að meta aðstöðu þeirra eftir eignunum einum; það er margt, sem hefir mikil áhrif á hana, annað en eignirnar, svo sem hve mikla ómegð þeir hafi á sínu framfæri, hvaða skilyrði og aðstöðu til markaðs þeir eigi við að búa og séu færir um að afla sér. Svo er enn eitt; ef lögin halda gildi sínu óbreytt og gengið er út frá því, að aðeins þurfi einfaldan meiri hl. til þess að knýja fram afslátt á skuldum, þá er satt að segja mjög hætt við því, að þetta leiði til ósanngirni gagnvart ýmsum lánardrottnum, en það atriði mun ég ekki fjölyrða um að þessu sinni.

Þá kem ég að öðru aðalatriðinu, en það er, að stjórn Búnaðarbankans annist stjórn Kreppulánasjóðs án sérstaks endurgjalds. Þetta er ekki nema sanngjörn sparnaðarraðstöfun og ætti að réttu að njóta hylli hv. þm. Ég lít svo á um þetta, að Búnaðarbankinn sé ekki svo stór stofnun, að það sé ósanngjarnt að fara fram á það við hann, að hann bæti við þessu verki, því að verkahringur hans mun ekki svo margbrotinn. Mér þykir því óþörf eyðsla að kosta fé til þess að launa sérstaka stjórn fyrir sjóðinn. Enn mætti og taka það fram, að óþarft virðist að eyða fé til héraðsnefnda fyrir starf, sem og álít, að gæti vel fallið undir verkahring yfirvalda, sem til eru og vel hefðu getað unnið þetta starf fyrir mun minna. En að leggja til breytingar í þessa átt héðan af saum við okkur eigi fært.

Ég mun láta þetta nægja fyrst í stað, en þá ósk vil ég láta í ljós, að hv. þm. liti á þessar brtt. með velvilja og víðsýni og sýni jafnframt réttan skilning á hugsunarhætti þeirra manna, sem komizt hafa í fjarkröggur af ósjálfráðum orsökum, þó þeir eigi meira en fyrir skuldum, en hafa svo sterka sjálfstæðismeðvitund og ríka sómatilfinningu í fjárhagsefnum, að þeir vilja eigi láta fara með sig sem vanskilamenn, nema einskis annars sé úrkostur. Ég vil að lokum leggja til, að málinu verði vísað til landbúnaðarn. og 2. umr.