13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2016)

15. mál, Kreppulánasjóður

Flm. (Jón Pálmason):

Það fór eins og ég gerði ráð fyrir, að fara mundi, að þeir menn, sem áttu mestan þátt í að setja þessi lög, vilja engar breyt. á þeim, og allra sízt þær, sem hér er farið fram á. Hv. meðflm. minn hefir þegar svarað ýmsum aths., sem fram komu frá hv. þm. Str., en ég vil samt víkja að örfáum atriðum.

Hv. meðflm. minn minntist á það, að nú sæti nefnd á rökstólum til þess að gera till. til ráðstafana út af fjárþröng sjávarútvegsins og verkalýðsstéttarinnar. Ég gæti hugsað mér, að það rynnu tvær grímur á suma hv. þm., sem hafa orðið þess valdandi, að gengið væri út á þessa braut, þegar þeir sæju fram á annan kreppulánasjóð fyrir sjávarútveginn og þann þriðja fyrir verkalýðsstéttina. En hvað sem þessu líður, þá er ekki um það að ræða nú, heldur hitt, hvort það eru réttmæt rök, sem fram hafa verið borin af meðhaldsmönnum þessara laga óbreyttra, og skal ég þá víkja að nokkrum atriðum, sem áður hefir verið drepið á.

Það virðist hafa vakað fyrir öllum, sem talað hafa gegn þessu frv., að ekki gæti komið til mála annað en að slegið yrði meira eða minna af skuldum þeirra manna, sem vitað er, að eiga fyrir skuldum. Þessu erum við að mestu leyti ósammála. Hv. þm. Str. og fleiri; sem talað hafa í þessu máli, hafa lagt ríka áherzlu á þá hættu, sem af því gæti stafað, ef fram kæmu kröfur á viðkomandi mann, eftir að hann væri gerður upp, og skuldir hans reyndust meiri en sagt hefði verið, eða á hann felli ábyrgð, sem ekki hefði verið vitað um. En hver er nú þessi hætta? Hún er ekki önnur en sú, að þessir menn, sem um er að ræða, hafa fengið lán gegn fullri tryggingu með 4% vöxtum. Og þeir hafa fengið það lán án þess að með þá væri farið eins og gjaldþrota menn. Það verður að athuga, að lögin gera ráð fyrir fullri tryggingu fyrir lánveitingunni, og ég fæ því alls ekki séð, að það sé nokkrum háska bundið fyrir ríkissjóð, þó að fátæklingar, jafnvel þótt þeir hafi illa aðstöðu, vilji ekki beygja sig undir hin ómannúðlegu skilyrði, sem eru fyrir þessari lánveitingu, sem þar á ofan er, eins og þegar er tekið fram, gegn fullri tryggingu, jafnvel þó að ekki sé komið í veg fyrir það, að ábyrgðir kunni að falla á þá síðar. Þetta er aðalágreiningsatriðið, og það kom ljóslega fram í ræðum þeirra hv. þm. Str. og hv. þm. Mýr., að þeir lögðu ekki réttan skilning í þetta atriði, og yfirleitt virtust þeir gera lítið úr því, hvort skýrslur lánbeiðanda væru réttar eða rangar. Ég get reyndar ekki sagt, að það hafi komið mér mjög á óvart, en ég hefði vænzt þess, að þó að þessir hv. þm. virði æruorð og drengskaparheit ekki mikils, þá sýni þeir skilning á því, að menn vilja ekki þegjandi þola það, að fjárhagsleg sómatilfinning þeirra sé troðin undir fótum.

Þá kem ég að þeim aths., að uppgjöf eða eftirgjöf á skuldum geti komið hart niður á ýmsum lánardrottnum. Það mun vera rétt hjá hv. þm. Str., að tilgangurinn með þessari lagasetningu og sjóðstofnun hafi verið sá, að vernda bændur og þeirra hag, en ekki lánardrottna. En ég vil benda hv. þm., og einkum hv. þm. Str., á það, að bændur hafa líka tapað á öðrum bændum og ábyrgðum fyrir þá, svo að það er ekki útilokað, að að ranglæti, sem leiðir af framkvæmd laganna, komi niður á bændum sjálfum, og mun þá verr farið en heima setið. Ég gæti sett upp lítið dæmi í þessa átt; við skulum hugsa okkur, að maður skuldi 10–11 þús. kr. Nokkurn hluta af þeim skuldar hann þeirri verzlun, sem hann á skipti við, en nokkurn hluta ábyrgðarmönnum á víxli, sem hann nauðsynlega þurfti að taka til þess að koma í lag öðrum hlaupandi skuldum. Setjum svo, að verzlunin taki það rað, til þess að fá sitt fé, að hún slær af skuldinni 25–30%. Þá yrðu ábyrgðarmennirnir neyddir til þess að sætta sig við það sama, ef lögin gilda í þeirri mynd, sem þau nú hafa. En þessar aðfarir virðast með öllu óþarfar og ósæmilegar, þegar athugað er, að nú eru allar afurðir að hækka í verði heldur en hitt, og fleira virðist benda í þá átt, að betri horfur séu fyrir dyrum. Ég skal taka það fram, sem vitað er, að ég hefi enga lögfræðilega þekkingu til að bera í þessum efnum, en undarlega kemur mér þó fyrir sjónir sú niðurstaða, að ef þessi lög með hinum nýju skiptaréttarakvæðum halda áfram að gilda óbreytt, þá verða framkvæmdir eftir þeim mögulegar, sem koma alveg gersamlega í bága við nauðasamningalögin. Ég skal ekki hafa fleiri orð um rétta atriði. Um það munu hv. lögfræðingar geta gefið skýringar, en ég veit, að í þessu efni munu margir ekki láta sér nægja minna en hæstaréttardóm.

Hv. þm. Mýr. og hv. þm. V.-Húnv. héldu því fram, að hér væri gengið inn á þá braut að gera fátæklingum erfiðara fyrir að fá lán, og að ég vildi draga þá út úr, sem ekki eiga fyrir skuldum. með því að auglýsa þá eingöngu. Ég vil játa það, að ég álít, að hægt sé að komast hjá auglýsingum. En lögfróðir menn segja, að ekki sé hægt að fella niður skuldir án þeirra, og óhjákvæmilegt er að auglýsa þá, sem ekki eiga fyrir skuldum. En því er þá verið að heimta af mönnum drengskaparyfirlýsingu alveg að óþörfu, ef ekkert á að leggja upp úr henni? Það er líka vitað, að mestur fjöldinn af þeim, sem á þessari aðstoð þurfa að halda, eru fátækir, en hinir aftur á móti fáir, sem ekki eiga fyrir skuldum; og samt er ætlazt til þess, að eitt sé látið ganga yfir alla. Svo er mér umhugað um, að hv. þm. sé það ljóst, að það verður að vera og er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að þessar ráðstafanir komi að gagni, að þeir sitji fyrir, sem erfiðasta aðstöðu hafa. Því ég er hræddur um, að þeir bændur, sem telja má talsvert efnaða, komist annars langbezt út úr því, vegna þess, hve góða tryggingu þeir geta sett.

Þá vék hv. þm. Borgf. að því í ræðu sinni, að honum þætti nokkurt ósamræmi í því að fella niður ákvæðið um það, að stjórn sjóðsins skuli meta það, hvort bændur séu færir um að reka búskap framvegis. En það er ekki í ósamræmi við neitt. Ákvæðið vil ég, að falli niður, af því að það er einskisvert, það er dauður bókstafur. Ég álít alls ekki, að sjóðstjórnin sé fær um að meta þetta. Svo getur komið til, að þessu ákvæði verði mjög ómannúðlega beitt í framkvæmdinni, því að það er mikill fjöldi bænda, sem í raun og veru er ekki fær um að halda búrekstinum áfram, enda þannig víða á þessum árum, að enginn búrekstur ber sig, og því ekki um neinn heilbrigðan búrekstur að ræða. En þó væri ósanngjarnt að beita ákvæði þessu, því að það eru almennt alls ekki sjálfskaparvíti, sem hafa orsakað þetta, heldur ósjálfráð atvik, fyrst og fremst auðvitað verðlagið og svo ill stjórn og allt ráðlag ríkisstjórnarinnar yfirleitt á síðustu árum.

Það er í raun og veru ekki mikið fleira, sem ég hefi að segja að sinni, þrátt fyrir þau andmæli, sem þegar hafa komið fram; en ég vil þó víkja nokkrum orðum að stjórn sjóðsins. Það virðist hafa verið siður hingað til, að þegar búið er að veita einhverjum launað starf, þá er sleginn hringur um það og allra bragða neytt til að vernda fyrir breytingum þá einstaklinga, sem hlut eiga að máli. Tveir hv. þm. sýndu við afgreiðslu málsins í fyrra nokkurn lit á því að fylgja þeirri reglu, sem við stingum nú upp á, en þegar var komið í það horf, sem nú er, gáfust þeir upp við breytingatilraunir. Nú vilja þeir enga breyt. Þeir þögðu og gerðu ekki neitt frekar, þó að þeir viti, að fé er hér á glæ kastað. Það finnst mér hinsvegar ekki undarlegt, þótt hv. þm. Mýr. sé þessu mótfallinn, því hann er ekki sá maður, að hann taki að sér aukastarf an sérstaks endurgjalds. Það er gott að eiga í þessu máli að etja við heilan flokk manna, sem er haldinn þeirri sýki, að launastörf megi aldrei fara forgörðum, og er þetta málefni þó aðeins örlítið brot af þessa flokks handaverkum. — Þetta frv. hefi ég borið fram með það fyrir augum að gefa þjóðinni og löggjafanum kost á því að forða sér úr þeim glundroða, sem nú vofir yfir, og ég þykist hafa gert allt, sem í mínu valdi stendur, svo að nú er undir hv. þm. komið, hvernig þetta mál verður til lykta leitt. Aðeins vil ég minnast á þau ummæli hv. þm. Str., að óeðlilegt þætti að bera slíkt fram á þessu þingi, vegna þess að það ætti að vera svo stutt, en ég vil benda á það, að hingað til hefir hvorki hann né hans flokksmenn unnið að því, að þingið standi stutt, því að vér höfum setið iðjulausir hér fram til þessa.