06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Ég vil benda hæstv. forseta á það, að höfuðtilgangur stjskr. er sá, að meiri hl. kjósenda ráði meiri hl. þings, og það er einmitt það, sem brtt. okkar þremenninganna tryggir. Það er því ekkert annað en fjarstæða að fara fram á, að slíkri till. sé vísað frá. Ég vil geta þess, að það var ekki útlit fyrir annað um tíma en að stjskrn. öll myndi verða sammála um þessa till. okkar. Hv. þm. N.-Ísf. var sammála okkur um hana, þangað til hann sá, að samþykkt hennar gat munað einu atkvæði fyrir Alþýðuflokkinn.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það væru kaldranaleg endalok á samvinnu Sjálfstfl. og Alþfl. um þessi mál, ef brtt. okkar næði fram að ganga. En ég vil benda honum á, að það var Alþfl. sem sleit þessari samvinnu þegar í þingbyrjun og einmitt á þeim stað, sem sízt skyldi í þessu máli, sem sé í stjskrn., með því að ganga þar sameiginlega til kosninga með Framsókn. Þeir geta því kennt sjálfum sér um þessi samvinnuslit, og þó einkum hv. þm. N.-Ísf.

Hv. þm. sagði, að við vildum ná tveim sætum með ofbeldi af Alþfl. Um ofbeldi er hér auðvitað ekkert að ræða, og sætið, sem e. t. v. gæti oltið á, er ekki nema eitt. En hver veit, hvernig atkv. falla við næstu kosningar? Ber ekki hv. þm. N.-Ísf. það traust til flokks síns, að honum muni aukast fylgi? Vér sjálfstæðismenn treystum svo málstað vorum, að vér væntum þess fastlega að fá meiri hl. kjósenda, og viljum þá líka fá meiri hl. þingmanna. Þeir hv. þm., sem halda vilja í þingræðið, verða að skilja, að ekkert er ofbeldisstefnunum meiri styrkur en ef þingmenn brestur réttlætistilfinningu í þessum efnum og þingið skyldi af þeim sökum verða röng mynd af vilja kjósendanna.