03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

Rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er óhætt að segja, að hv. 4. landsk. sé skáld. Hann er svo lipur að skálda á þann hátt, sem honum kemur bezt, að hann skeytir engu, hvort hann fer með rétt eða rangt mál, aðeins að það sé til framdráttar hans eigin málstað.

Um viðskipti okkar Lárusar í Klaustri vil ég helzt, að þessi hv. þm. skipti sér sem minnst. Ég er þess fullviss, að hvað þau snertir, þá ber Lárus mér ekki illa söguna.

Þá vil ég undirstrika það, að allt, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um kosningakærumálið þar eystra, var rétt. Það kom upp ágreiningur þar á milli verkstjórans og eins verkamannsins, sem var bílstjóri og hafði bíl í vinnunni. Hann vildi fá kaup fyrir bílinn þann tíma, sem hann var frá vinnu við hina lögskipuðu bílaskoðun, en það vildi verkstjórinn ekki greiða. Yfir þessu reiddist bílstjórinn og brigzlaði verkstjóranum um, að hann stæli af vinnutíma sínum. Sagði verkstjóri þá bílstjóranum, að hann gæti unnið, ef honum svo sýndist, en hann myndi ekki skrifa tíma hans.

Það, sem ég sérstaklega vil vekja athygli á í sambandi við mál það, sem hér er til umr., er það, að aðferð sú, sem hér er átalin við kosningu utan kjörstaða, hefir verið viðhöfð hér í Rvík með vitund allra flokka og algerlega ámælislaust. Annars þekki ég svo vel þessa hv. embættismenn, sem hér eiga hlut að máli, að ég veit, að þeir hafa ekki gert annað en það, sem þeir hafa talið rétt, því að hvorugur þeirra mun vilja gera nema það eitt, sem rétt er.