07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

2. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Ég þarf ekki að svara þeim andmælum, sem flutt hafa verið gegn því, sem ég sagði. Mér er mikið áhugamál, að þingi geti verið lokið sem fyrst, svo að við Norðurlandsþm. getum komizt heim fyrir helgi. Það hefir ekki heldur verið hrakið neitt af því, sem ég sagði, að meiri jöfnuður næðist með till. hv. þm. N.-Ísf. Hitt er allt annað mál, að þeirra flokkur mun hafa meiri hagsmuni af því að till. sjálfstæðismanna nái samþykki. En ég vil vekja athygli á því, að það, sem sýnast flokkshagsmunir í dag, getur snúizt til óhags á morgun. Það er enginn kominn til þess að segja, að þeirra flokkur verði sá stærsti í framtíðinni, og þá verður það ef til vill andstöðuflokkur þeirra, sem græðir á þeirra eigin till. í framtíðinni. Afstaða kjósendanna til flokkanna getur breytzt óðar en varir, svo að ég held, að hv. sjálfstæðismenn ættu að fara varlega í að hafa þetta sjónarmið, og hafa heldur það sama og ég og reyna að finna, hvað er réttlátast í þessum efnum.

Hv. þm. A.-Húnv. játaði, að hann hefði þann tilgang með sinni afstöðu, að hann vildi stuðla að því, að stærsti flokkurinn gæti náð meiri hl. þingsæta. Það getur verið gott og blessað, að einn flokkur hafi meiri hl. þingsæta og geti þannig einn borið alla ábyrgð á löggjöfinni og stjórnarfarinu í landinu, en ég er nú svo mikill lýðræðismaður, að ég játa þessu því aðeins, að flokkurinn hafi meiri hl. þjóðarinnar á bak við sig, en ef hv. þm. A.-Húnv. athugar till. flokksbræðra sinna í stjskrn., hlýtur hann að sjá, að þetta getur náðst án þessa óhjákvæmilega skilyrðis, og ég tel það heldur ekki æskilegt fyrir neinn flokk að hafa meiri hl. hér á Alþingi án þess jafnframt að hafa meiri hl. kjósenda á bak við sig.

Það var auðskilið á ræðu hv. þm. A.-Húnv., að hann taldi þetta hagsmunamál fyrir Sjálfstfl. En það má minna á það í þessu sambandi, að flokkurinn hefir ekki undanfarið talað mikið um hagsmuni sína, a. m. k. ekki opinberlega, heldur réttlætið í þessum málum eitt, og ekkert annað. Það stendur hinsvegar óhrakið, og hefir meira að segja ekki verið gerð tilraun til að hrekja það, að réttlætið í þessum málum, sem er það, að þm. flokkanna hafi sem jafnasta kjósendatölu, næst bezt með till. hv. þm. N.-Ísf.

Hv. þm. A.-Húnv. endaði ræðu sína með slettum til okkar framsóknarmanna, og sé ég að vísu ekki ástæðu til að svara því sérstaklega. Ég vil þó segja það, að Framsfl. mun haga sér að því er snertir samstarf við aðra flokka eftir því, hvernig hann getur bezt komið stefnumálum sínum fram. Við framsóknarmenn höfum um skeið haft samvinnu við Sjálfstfl., og með þeirri samvinnu gátum við komið mikilsverðum málum fram, og eins mun um við framvegis, ef við höfum sömu hagsmuni af, vera í samvinnu við aðra flokka. Framsfl. gengur ekki inn á það að vera aðstoðarflokkur neinna annara flokka í þinginu, hvorki Sjálfstfl. né Alþýðufl.

Hv. 1. þm. Reykv. lét svo um mælt, að það væru ekki sjálfstæðismenn einir, sem vildu ekki úthluta uppbótarsætunum eftir reglum hlutfallskosninganna, því að stjskr. heimilaði það ekki heldur. Þetta verður þó því aðeins rétt í því tilfelli, að uppbótarsætin nægi ekki til þess að þetta náist, en það, sem hv. þm. N.-Ísf. vill og ég er samþykkur, er einmitt það, að þessu verði náð eins og hin nýsamþykkta stjskr. frekast leyfir. Og það er það, sem hv. sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á.