07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Ég skal svara hv. 1. þm. Eyf. nokkrum orðum, en langt út í málið tel ég ástæðulaust að fara,

Hv. þm. sagði, að ég hefði játað, að tilgangurinn hjá okkur sjálfstæðismönnum væri sá, að stuðla að því, að vafasætin, sem um er að ræða, lentu heldur hjá stærsta flokknum en minnsta flokknum. Það er og augljóst, að þetta er heppilegt, en að vísu því aðeins, að um flokk sé að ræða, sem vinnur á heilbrigðum grundvelli, að þjóðarheill, réttlæti o. s. frv. Og það kemur naumast til að flokkur, sem helmingur þjóðarinnar stendur að, hafi ekki eitthvað það við sig, sem þjóðin getur treyst. Ef þjóðin sjálf er ekki á villigötum stödd, hlýtur stærsti flokkurinn að vera sá flokkurinn, sem þjóðin getur bezt treyst til að fara með mál sín. Það er hinsvegar rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að það er ekki hollt fyrir neinn flokk að taka völdin, ef hann hefir ekki meiri hl. þjóðarinnar á bak við sig. En þótt oltið geti á nokkrum vafaatkvæðum, tel ég samt rétt, að flokkurinn hafi skilyrði til að taka völdin og vinna að því, sem hann telur sér rétt og skylt og er að útrýma því spillta ástandi, sem hefir verið hér á landi um stund. — Ég viðurkenni, að það er mest réttlæti í því, að sem jöfnust atkvæðatala sé á bak við hvern þm., og það er líka einmitt þetta, sem verið er að reyna að ná, og á misskilningi byggt, að á milli þessara tveggja till. sé svo mikill mismunur í þessu falli eins og sumir hv. þm. hafa viljað vera láta, eins og líka hefir verið bent á af öðrum. Ég skal svo að síðustu víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ég hefði verið að sletta til þeirra framsóknarmanna. Ég sletti engu til þeirra, enda er það ekki vani minn að vera með slettur. Hinsvegar benti ég á atriði, sem er upplýst opinberlega og skjalfest, og er það, að Framsfl. rekur verzlun á víxl við hina flokkana, eftir því, sem honum þykir hentugast hverju sinni, og sem stendur vinnur hann með minnsta flokkinum í þinginu. Hv. 1. þm. Eyf. vill skýra þetta svo, að Framsfl. Vinni að sínum stefnumálum hvort heldur sem er með Sjálfstfl. eða Alþfl., eftir því, hvernig við horfir í hvert skipti, en ég held, að það væri bezt fyrir hv. 1. þm. Eyf. eins og aðra þá framsóknarmenn að tala sem minnst um stefnumál Framsfl., því að öll þau stefnumál, sem flokkurinn hefir haft, er hann löngu búinn að svíkja.