07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Það hefir þótt rétt að hespa þetta mál ekki svo af, að það væri ekki ýtarlega rætt, og skal ég því leyfa mér að ræða málið eins og tilefni hefir gefizt til. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á það, að hann hefir nú þegar haldið tvær ræður í málinu, auk aths.). Ég hafði ekki vænzt þess, að hæstv. forseti færi að skera ræðuleyfi mitt fremur við neglur sér en ræðuleyfi annara hv. þm. Annars vil ég benda hæstv. forseta á það, að ég er frsm. n., og auk þess frsm. minni hl., svo að það er ekki óeðlilegt, þótt ég fengi ekki óríflegra málfrelsi en aðrir þm. En auðvitað getur hæstv. forseti tekið af mér orðið, ef honum sýnist svo. (Forseti: Ég veit þau skil á þingsköpum, að ég veit, hvern rétt þm. hafa til ræðuhalda). Mér hefir aldrei komið í hug að efast um það, að hæstv. forseti vissi full skil á þingsköpum.

Ég mun þá fyrst víkja að þeim ræðum, sem fluttar hafa verið á þessum fundi, og skal þá fyrst snúa mér að hv. 1. þm. Eyf. Hann á sæti í stjskrn. af hálfu flokks síns, og á hann það sameiginlegt við hv. þm. N.-Ísf., að hann uppgötvaði ekki fyrr en á síðustu stundu þetta reginhneyksli, sem á nú að þeirra dómi, að felast í till. okkar sjálfstæðismanna viðvíkjandi úthlutun uppbótarsætanna. Hv. þm. talaði um það, að regla okkar mundi gefa stærri flokkunum aukinn rétt. Þetta er ekki allskostar rétt, þótt það að vísu geti komið fyrir, að hún dragi taum stærri flokkanna, þannig að eitt vafasæti lendi frekar hjá stærri flokkunum en þeim minni, og ég tel það í samræmi við stjskr. og þann anda, sem hún er byggð á, að reynt sé að tryggja það, að flokkur, sem hefir meiri hl. kjósenda á bak við sig, fái meiri hl. þingsæta, fremur en að stefnt skuli að því, að hin endanlegu hlutföll á milli stærsta og minnsta flokksins verði sem jöfnust. Það er þýðingarmeira, að meiri hl. kjósenda ráði meiri hl. Alþingis heldur en hvort hlutfallstölurnar milli Sjálfstfl. og Alþfl. verða 700 og 750 eða 700 og 780. Hv. 1. þm. Eyf. viðurkenndi það líka, að í því tilfelli, að stærri flokkurinn hefði meiri hl. kjósenda, væri réttara, að hann fengi vafasætin. Hinsvegar vildi hv. þm. halda því fram, að þetta tilfelli kæmi ekki fyrir. Við verðum þó um þetta að miða við atkvæðatölur flokkanna, og atkvæðatölurnar voru þær við síðustu kosningar, að Sjálfstfl. hafði meiri hl. þeirra atkv., sem til greina koma um skipun þingsins. Sjálfstfl. fékk 17131 atkv., Framsfl. 8530½ atkv. og Alþýðufl. 6864½ atkv., og hefir Sjálfstfl. þannig 1736 atkv. fleira en hinir tveir flokkarnir hafa til samans. Er það tvímælalaust eftir þeim reglum, sem kosningalögin leggja að öðru leyti á, að Sjálfstfl. á samkv. þessu að hafa hreinan meiri hl. á þingi.

Hv. 2. þm. N.-M. talaði um það, að farið væri að slá út í fyrir okkur í réttlætismálunum, þar sem flokkarnir, er hafa haft forgöngu í þeim málum, væru nú farnir að togast á um þau. En ég vil benda hv. 2. þm. N.-M. á það, sem ég tók fram áður, að grundvöllurinn undir skipun þingsins á að vera sá, að meiri hl. kjósendanna ráði meiri hl. þings, og það er einmitt til þess að ná því marki, að þessi till. okkar er borin fram. Þá var hv. þm. eitthvað að nöldra um það, að þetta nýja skipulag mundi steypa þingræðinu og þjóðræðinu í landinu. Að þessi hv. þm. sé á móti þeim breyt., sem stjskr. og kosningal. gera á kjördæmaskipun og kosningarrétti, kemur mönnum ekki kynlega fyrir, en ég vil vekja athygli hans á því, að það er svo fjarri því, að þær verði til að steypa þingræðinu, að þær þvert á móti verða til að tryggja það og gera það réttlátara. Þegar hv. þm. hefir áttað sig nægilega á þessu, vænti ég þess, að hann sannfærist um það, að sá málstaður, sem fram er fluttur í stjskr., er sá réttláti málstaður.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að útreikningafargani hv. þm. N.-Ísf. og taka dæmið, sem hann nefndi um það, hve regla okkar væri óréttlát. Hv. þm. sagði, að þetta kæmi sérstaklega í ljós, ef það dæmi væri tekið, að frambjóðendur Alþfl. við síðustu kosningar á Seyðisfirði og í N.-Ísafj.sýslu hefðu báðir fallið, en ég vil benda hv. þm. N.-Ísf. á það, að samkv. okkar reglu hefði Alþfl. einmitt fengið þessi tvö sæti aftur í 2 uppbótarþingsætum, því að flokkurinn hefði fengið 6 uppbótarsæti, ef svo hefði farið, í stað 4 ella. Regla okkar er því svo réttlát, að flokkurinn hefði fengið 2 uppbótarsætum fleira, ef hann hefði misst þessi tvö sæti, og finnst mér hv. jafnaðarmenn mega vel una við slíkt. Afgangstala Alþfl. hefði þá orðið 5092 og sjötti maður þeirra fengið 8484/6 atkv., en afgangstala Sjálfstfl. var þá 4720, og fékk fimmti maður okkar 944 atkv., en sjötti maðurinn 786 atkv.

Þessar umr., og þó einkum það, sem borið hefir á milli hv. þm. A.-Húnv. og hv. 1. þm. Eyf., gæti gefið tilefni til að halda áfram í allan dag þessum umr., og þótt hv. þm. S.-Þ. hafi engan áhuga fyrir því að komast heim og yfirgefa þingstörfin, sem ég að vísu vel skil, ef satt er, sem sagt er, að þetta sé síðasta þingið, sem hann situr, og eigi hann að afhenda sér miklu verri manni þingsæti sitt, þá hefir hv. 1. þm. Eyf. lýst því yfir hér, að hann vill komast heim sem fyrst, og vil ég taka fullt tillit til óska hans í þessu efni og skal ekki lengja umr. mikið úr þessu. Sem ábyrgur stjórnarskrárnefndarmeðlimur vil ég því að lokum mælast til þess, ef svo illa skyldi takast til, að till. okkar sjálfstm. yrði felld, að till. hv. þm. N.-Ísf. verði samþ., enda er þessi till. hans ekkert sérstakt heilasmið hans, heldur endurbætt útgáfa af ákveðnum till. okkar sjálfstæðismanna í nefndinni og færð í stærðfræðilegan búning. En ég vona fastlega, að til slíks komi ekki, en að hv. þm. greiði till. okkar atkv., sem tekur tillit til þess réttlætis, að þingið sé á hverjum tíma skipað í sem fyllstu samræmi við vilja kjósendanna í landinu.