07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

2. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Mér þótti vænt um að heyra ræðu hv. þm. A.-Húnv. áðan. Hann breiddi sig mjög út yfir það, hversu Sjálfstfl. ynni á heilbrigðum grundvelli, með heill alþjóðar fyrir augum, og af því dró hann þá ályktun, að hann hefði meiri rétt til þess uppbótarþingsætis, sem vafi gæti verið um, heldur en aðrir flokkar. Ég er nú hræddur um, að með þessari rökfærslu geti fleiri stjórnmálaflokkar haldið því fram, að þeim beri þetta uppbótarþingsæti, því að vitanlega telur hver flokkur sig einan vinna á heilbrigðum grundvelli. Hinir fari meiri og minni villigötur.

Hann bar ekki á móti því, hv. þm., að hann hefði verið með dylgjur um Framsfl. út af samvinnu hans við aðra flokka. Meira að segja endurtók það, að sú samvinna hefði verið óheiðarleg. Sennilega telur hann þó ekki óheiðarlegt, að síðan 1932 hefir Framsfl. verið í samvinnu við Sjálfstfl., og gagnkvæmt. Nei, það er ekki fyrr en Framsfl. ætlað að fara að vinna með Alþfl., að þetta er óheiðarlegt. Annars vil ég minna hv. þm. á það, að flokkur hans sjálfs er ekki saklaus af samvinnu við þessa háskalegu sócíalista. Eða man hv. þm. ekki eftir bræðralagi sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna við kosningarnar 1931, og alla tíð síðan í kjördæmamálinu? Með þessu er ég alls ekki að segja það, að það sé óheiðarlegt, að flokkar vinni saman; þvert á móti tel ég það eðlilegt, þegar áhugamál þeirra eru sameiginleg. En samkv. kenningu hv. þm. A.-Húnv. er öll slík samvinna óheiðarleg.

Ég ætla ekki að ganga langt inn á ræðu þm. Snæf. Hann vildi halda því fram, að Sjálfstfl. hefði fengið meiri hl. þeirra atkv., sem til greina hefðu komið um skipun þingsins, og ætti hann því að ráða lögum og lofum hér. Út af þessu vil ég minna hv. þm. á, að Sjálfstfl. fékk ekki nema 48% af þeim atkv., sem greidd voru við síðustu kosningar, en telji hann atkv. þau, sem kommúnistar fengu, Sjálfstfl. til framdráttar, þá er þetta rétt, og þá get ég viðurkennt, að Sjálfstfl. eigi mestu að ráða hér á Alþingi.

Að síðustu vil ég geta þess, að Þorkell Þorkelsson hefir fyrir fáum mínútum afhent mér nýjan útreikning á þessu umþráttaða atriði, og sá útreikningur styður alls ekki brtt. sjálfstæðismanna. Útreikning þennan mun ég afhenda stjskrn. Ed., ef till. sjálfstæðismanna verður samþ. hér.