07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

2. mál, kosningar til Alþingis

Vilmundur Jónsson:

Ég ætla einungis að svara hv. þm. Snæf. því, að ég hefi haldið því fram og meina það fyllilega, að till. þeirra sjálfstæðismanna í stjskrn. sé tvímælalaust brot á stjskr. En hv. 1. þm. Reykv. heldur aftur fram, að till. mín sé stjskr.brot, og er ég ekki einn um að hafa óskað úrskurðar forseta. Það höfum við báðir gert. Nú segir hv. þm. Snæf. og metur það goðgá, að flokksblað mitt hafi tekið þetta upp eftir mér. Þykir mér það ekki ósennilegt. En hafi blöð hans ekki tekið upp og stutt skoðun þeirra á minni till., þá sýnir það ekkert annað en það, að þeir hafa í þessu máli ekki einu sinni fylgi í sínum eigin flokki.

Hv. þm. Snæf. var að krefjast þess, að flokkur hans fengi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína. Við því er auðvitað ekkert að segja, ef það er ekki á kostnað annara flokka og þeirra kjósenda. En í rauninni er það, sem hann er að krefjast í þessu sambandi, ekkert annað en það, að fá uppbótarsæti ekki aðeins fyrir atkv. Sjálfstfl., heldur einnig fyrir atkv. kommúnista. Má vera, að hann hafi eitthvert sérstakt umboð þeirra til þess, þó að mér sé það ekki kunnugt. (TT: Ég vil geta þess, að þetta eru tómir útúrsnúningar hjá hv. þm., og mun ég ekki svara því frekar).