07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

2. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (JörB):

Það leiðir af líkum, að ég mun ekki geta svarað fyrirspurnum, sumpart tölulegum, sem margbrotinn og ýtarlegan útreikning þarf við, er beint hefir verið til mín nú fyrir skammri stundu í þessum umr. Þesskonar skýringar á þeim atkvgr., sem nú fara fram um brtt. við 127. gr., leiði ég því alveg hjá mér. Það, sem ég geri hér að umtalsefni, er það, hvort brtt., og þá eðlilega fyrst og fremst sú, sem upphaflega var krafizt úrskurðar um, brjóti í bág við stjskr. þá, er nú gildir, og þá með hliðsjón af stjskrfrv. því, sem nú hefir verið afgr. frá þinginu sem lög.

Hv. þm. N.-Ísf. hefir óskað úrskurðar míns um það, hvort brtt. á þskj. 322 geti samrímazt ákvæði 1. málsl. c-liðar 1. gr. stjórnarskrárfrv. þess, sem nú er afgr. sem lög frá þinginu.

Þó að hér sé nú svo ástatt, að hið nýafgreidda stjskrfrv. sé ekki enn staðfest og komið í gildi, má ganga að því vísu, að það verði að lögum.

Kosningalagfrv. það, sem hér um ræðir, er byggt á stjskr. þeirri, sem nú gildir, með breyt. þeirri, sem á henni verður samkv. frv. því, sem þingið hefir nú afgr. Verð ég því að líta svo á, að forseti sé bær um að úrskurða, hvort ákvæði í lagafrumvarpi, sem miðað er við hina nýju skipun, sem á Alþ. verður samkv. stjskrfrv., brjóti í bága við það eða ekki.

Ákvæði það í 1. gr. stjskrfrv., sem hér skiptir máli, hljóðar svo:

„Allt að 11 þingmenn“ (skulu sem sé eiga sæti á Alþ.) „til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar“.

Hv. þm. N.-Ísf. telur, að ákvæði brtt. á þskj. 322 um skiptingu uppbótarsæta milli þingflokka stappi mjög nærri og brjóti jafnvel algerlega í bág við ákvæði það í stjskrfrv., sem ég nefndi, með því að brtt. sín um sama efni á þskj. 323 fari nær því að fullnægja nefndu stjórnarskrárákvæði. Sú aðferð, sem sú brtt. leggi til, að viðhöfð verði um skipting uppbótarsæta á þingflokka eftir almennar kosningar, leiði til fyllri jöfnunar milli þeirra, hlutfallslega við atkvæðatölu hvers um sig, heldur en sú aðferð, sem brtt. á þskj. 322 gerir ráð fyrir.

Nú eru það skýlaus fyrirmæli og tilgangur stjórnarskrárfrv., að hver þingflokkur hafi hlutfallstölu þingsæta í sem fyllstu samræmi, miðað við kjósendatölu, og uppbótarsætin eru beinlínis til þess ákveðin að ná í þessu sem fyllstu jafnrétti flokka á milli.

Þær mismunandi aðferðir við úthlutun uppbótarsæta milli þingflokka, sem till. á þskj. 322 og 323 ræða um, geta, ef svo ber undir, leitt til alls ólíkrar niðurstöðu, eftir því hvor aðferðin er notuð, og ákvæði brtt. hv. þm. N.-Ísf. á þskj. 323 fullnægir betur þeim tilgangi, sem stjórnarskrárákvæðið stefnir að í þessu efni. Með þessu er þó ekki sagt, að ekki sé unnt að viðhafa þá aðferð við skiptingu uppbótarsæta á þingflokkana, er tryggi enn betur jöfn áhrif kjósenda hvers flokks á skipun Alþingis en till. hv. þm. N.-Ísf. gerir. Það hefi ég ekki haft tækifæri til að rannsaka til hlítar, svo að vera kynni, að sú till., borin saman við enn aðra aðferð, fullnægði ekki eins vel umræddum ákvæðum, og gæti jafnvel slík till. enn komið fram í meðferð þingsins á málinu.

Þar sem málið er nú þannig vaxið, þykir mér ekki hlýða að gera svo upp á milli hinna framkomnu tillagna um þetta framkvæmdaatriði, að vísa till. á þskj. 322 frá atkvgr. Ég vil gefa þdm. færi á að sýna það við atkvgr., hvernig þeir líta á þetta mál.