08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

2. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

Ég hefi ekki tekið eftir því, að leitað hafi verið afbrigða fyrir þær brtt., sem hv. 2. þm. S.-M. var að lýsa. (JBald: Það hefir ekki verið gert). Mér finnst þetta alveg óhæfileg meðferð á máli. Það er að skilja svo, að hv. Nd. hafi hrapað svo að þeim breyt., er hún gerði á frv. nú síðast, að nú þurfi að gera á því meiri og minni leiðréttingar. Þannig er nú frv. á sig komið eftir tveggja daga umr. í hv. Nd., sem urðu svo flóknar, að góð stærðfræðishöfuð áttu erfitt með að skilja. Meira að segja er vafamál, að ræðumennirnir hafi skilið sjálfa sig til hlítar. Og þegar svo kemur til kasta þessarar hv. d., þá eigum við að sætta okkur við að greiða atkv. um brtt. við frv. án þess að fá að sjá þær, og svo lýsir frsm. meiri hl. stjskrn. því yfir, að enn geti verið um að ræða marga galla á frv. (IP: Það hafa tvær nefndir athugað frv.). Já, ég hefi séð þá á hlaupum hér milli deildanna í dag, en ég skil nú ekki, að það hafi verið mikið gagn að slíkum vinnubrögðum. Mér finnst það dálítið hart, þegar þingið er kallað saman aðallega til þess að afgr. þetta mál, að önnur d. skuli ekki einu sinni fá að sjá síðustu brtt. við frv. áður en hún á að greiða atkv. um þær. Mér finnst það væri sæmilegra að fresta umr. um till. og gefa þdm. færi á að bera þær saman við frv. og taka svo málið fyrir í kvöld eða í eftirmiðdaginn. (Nokkrir þdm.: Þá er ákveðinn fundur í Sþ.). Já, mér er sagt, að það eigi að fara að halda einn af þessum þarflegu fundum í Sþ. (JBald: Þeir eru nú fyrir hv. þ. eins og aðra). Nei, ég held áreiðanlega, að þjóðin yrði ekki fyrir neinum skaða, þó slíkir fundir færust fyrir og væru ekki látnir tefja aðalmálin. (JBald: Hv. þm. hefir þó tekið þar til máls). Hv. þm. hefir kannske sofið og dreymt mig í ræðustól, en annars held ég það skipti litlu, hvort ég eða aðrir hafa talað á þessum fundum, þegar málefnið var óþarft.

Ég get sagt það, að ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til frv. og brtt. án þess að fá að athuga málið betur. Mér sýnist, að víða geti þurft að breyta; t. d. má nefna ákvæðin í 128. gr., sem ég get ekki betur séð en að sé hrein og bein vansæmd fyrir þingið að samþ. eins og hún er. Hvers vegna þessi merkilegi útreikningur, að láta efsta mann á skrá verða þriðja á lista og næstefsta á skrá sjötta á lista? Mér finnst, að réttara hefði verið að snúa þessu alveg við og setja þann efsta neðstan og svo koll af kolli. Þá hefðu þessi ákvæði notið sín betur í allri sinni fegurð og mikilleik. Ég ætla svo ekki að halda lengri ræðu, en óska, að afgreiðslu frv. verði a. m. k. ekki hraðað svo, að hv. þdm. fái ekki að lesa brtt.