08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Þegar frv. var útbýtt í gærkvöldi með breyt. hv. Nd., fór stjskrn. þessarar d. á fund og athugaði eftir föngum breytingarnar. Það var vitanlega ómögulegt fyrir n. að athuga allt þetta umfangsmikla frv. Því tók hún það ráð að stikla aðeins á því stærsta. Ég skal játa, að það er varla von á því, að hv. þm. hafi því getað gert sér grein fyrir þeim breyt., sem orðið hafa á frv. í hv. Nd., á svo skömmum tíma, sem liðinn er síðan frv. kom fyrir þessa hv. d. Niðurstaðan af athugun n. er sú, að ekki hefir orðið samkomulag um að bera fram till. um efnisbreytingar á frv. Hinsvegar hefir meiri hluti n., hv. 2. þm. S.-M., hv. þm. N.-Þ. og hv. 2. þm. Rang., flutt nokkrar brtt. við frv. í heild. Ég álít, að hv. Nd. hafi gengið svo langt í því að breyta frv., að nú sé það í verulegum atriðum komið í bága við skýlaus ákvæði stjskr., og þó öllu meir í bága við samkomulag allra þingflokka á síðasta þingi viðvíkjandi þessum ákvæðum stjskr. Í stjskr. þeirri, sem nú er að koma í gildi, er stjórnmálaflokkum með berum orðum leyft að hafa landslista í kjöri. Það þýðir, að kjósa skuli um landslista, sem skipaðir eru ákveðnum mönnum, þegar kosning fer fram. Þessu er öllu grautað í hv. Nd., svo að nú veit enginn kjósandi, hvern eða

hverja hann er að styðja í uppbótarsæti. Það er sagt, að hv. Nd. hafi gert þessar breyt. til þess að draga úr áhrifum flokksstjórna á því, hverjir verða í framboði og nái kosningu. Þetta er vitanlega í fyllsta ósamræmi við ákvæði stjskr., því þar eru öll framboð miðuð við stjórnmálaflokka, og þá auðvitað um leið flokkstjórnir, sem eru einu sjálfsögðu umboðsmenn flokkanna, þ. e. a. s. þeirra kjósenda, sem líta eins á málin og þeirra flokksstjórnir. Það er því ekki nema rétt, að þessir umboðsmenn ráði því, hverjir skipa landslista fyrir flokkana. En hv. Nd. hefir litið öðruvísi á þetta mál; hún hefir reynt að draga burt öll áhrif flokksstjórna á skipun lista. Þó hefir þetta ekki tekizt til fulls, því ég sé ekki betur en að með yfirlýsingum frambjóðenda einhvers flokks um, að þeir taki ekki sæti á landslista, komi til kasta flokksstjórnarinnar að tilnefna menn í þeirra stað.

Ég er á sömu skoðun og hv. 1. landsk. um það, að ég vil ekki fella úr frv. þau ákvæði, sem eru í samræmi við stjskr. Þess vegna get ég ekki verið með 2., 3. og 4. brtt. meiri hl. n. Aftur er 1. brtt. óskyld, og mun ég greiða atkv. með henni.

Það er þinginu til minnkunar, hvernig á að afgr. þetta mál, og því fremur, sem það er vegna ofurkapps eins eða tveggja manna. Sennilega verður ekki unnt að fá samþ. brtt., er færi frv. aftur í sama horf og það var í, er þessi d. afgreiddi það til Nd. síðast, þegar þeir menn, sem áður studdu frv., þannig eru nú búnir að breyta um afstöðu. Þess vegna hefi ég ekki lagt verk í það að flytja brtt. í þá átt.

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. var að segja um, að nær væri að halda fund hér í d. heldur en „þessa ómerkilegu fundi“ í Sþ., þá verð ég að segja, að það gleður mig stórlega, að hann telur fundi Sþ. ómerkilega, því þá má ganga út frá því, að flestum öðrum þyki fundirnir og málefnin merkileg. Þannig munu skoðanir almennings vera á þessum hv. þm. Þó er sú undantekning um þessa merku fundi Sþ.,hv. 3. þm. Reykv. hóf á fyrsta fundinum óþarfa umr. um mál og tafði þannig fundinn að óþörfu. Að öðru leyti má að vísu geta þess, að um það mál í Sþ., er lengstan tíma hefir tekið að afgr., fluttu flokksbræður hv. þm. milli 15 og 20 ræður, og voru þó í varnaraðstöðu, móti 6 til 7 ræðum, sem Alþfl.menn fluttu, og voru þeir þó sækjendur málsins. Af þessu er ljóst, að sjálfstæðismenn eiga sök á því, ef þessar umr. hafa orðið of langar. Annars skal ég taka fram, að fundir í Sþ. hafa aldrei komið í bága við meðferð kosningalagafrv. Þannig var í það eina skipti, sem það hefði getað orðið, fundi frestað í Sþ., svo hægt væri að halda deildarfund um þetta aðalmál þingsins. Þess vegna fer guðsmaðurinn hér algerlega með rangt mál, eins og oft vill henda hann, en um það þýðir ekki að fást, því hann er með þessum ósköpum fæddur.